Finnbogi Einarsson (ábóti)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Finnbogi Einarsson (d. 1532) var íslenskur prestur og síðar ábóti í Munkaþverárklaustri og tók þar við af föður sínum, Einari Benediktssyni, þegar hann dó 1524, og hafði áður verið aðstoðarmaður hans frá 1517. Hann var vígður ábóti 1525 og gegndi embættinu til 1529 en dó þremur árum síðar.

Móðir Finnboga var fylgikona Einars, Guðrún Torfadóttir, sem var dóttir Torfa Arasonar hirðstjóra og Akra-Kristínar konu hans. Hann er nefndur sem prestur 1495. Árið 1502 var hann orðinn prestur á Hólum í Hjaltadal og var þar til 1507, en þá fékk hann Grenjaðarstað eftir að séra Eiríkur Einarsson lést. Hann var prestur þar til 1528 en var þó að mestu á Munkaþverá, var aðstoðarmaður föður síns frá 1517 og hélt þar skóla og varð svo ábóti þegar faðir hans lést. Hann var sagður mjög lærður og góður latínumaður eins og faðir hans.

Fylgikona Finnboga var Ingveldur Sigurðardóttir. Þau áttu þrjú börn, Gísla sterka, sem var prestur norðanlands, faðir Guðrúnar barnsmóður Guðbrands Þorlákssonar biskups, Svein prest og Guðrúnu, móður Einars Sigurðssonar skálds og prests í Eydölum.

Eftirmaður Finnboga var Pétur Pálsson, sem var vígður 1532 og var næstsíðasti ábóti í Munkaþverárklaustri.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Munkaþverár-klaustur. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.
  • „Munkaþverárklaustur. Sunnudagsblaðið, 10. apríl 1966“.