Fado

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kona flytur fado

Fado er þunglyndisleg og tregablandin tónlistarstefna sem óx og dafnaði meðal lægri stétta Portúgals sem og í háskólasamfélagi þess. Það orð sem best lýsir tónlistinni er portúgalska orðið saudade sem er ætlað að lýsa þeirri sammannlegri tilfinningu sem felst í því að vera ástfanginn af einhverjum eða einhverju sem maður er fjarri. Þrátt fyrir að stefnan teljist portúgölsk á hún væntanlega uppruna sinn í afrískum þrælasöngvum ásamt tónlist portúgalskra sjómanna, auk þess sem hún hefur orðið fyrir áhrifum af arabískum söngvum. Sumir telja jafnframt að Fado hafi orðið fyrir áhrifum af brasilíkri tónlist, líkt og Lundum og Modinha.

Fado skiptist í tvær meginstefnur: Þá sem á uppruna sinn í höfuðborginni, Lissabon, og þá sem má rekja til háskólabæjarins Coimbra. Fyrrnefnda stefnan var talin tónlist alþýðunnar og flytjendurnir voru yfirleitt konur, á meðan sú síðari var tók sig alvarlegar, var hástemmdari og yfirleitt flutt af karlmönnum. Fyrri stefnan er og hefur verið til muna vinsælari meðal portúgala.

Amália Rodrigues er án vafa frægasta fadosöngkona Portúgals en eftir að hún hvarf af sjónarsviðinu tóku aðrir söngvarar að þróa stefnuna, t.d. með því að blanda henni við raftónlist.

Frægustu fadosöngvarar landsins eru Mariza, Ana Moura, Cristina Branco og hljómsveitin Madredeus.