Félag íslenskra rithöfunda

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Félag íslenskra rithöfunda var stéttarfélag „lýðræðissinnaðra íslenskra rithöfunda“ sem varð til úr klofningi á aðalfundi Rithöfundafélags Íslands 18. mars 1945. Formannskosning lá fyrir og hafði fráfarandi formaður, Friðrik Á. Brekkan, lagt til að Guðmundur G. Hagalín tæki við af sér. Kosningin fór hins vegar þannig að Halldór Stefánsson var kosinn með fimmtán atkvæðum gegn tíu. Guðmundur og ellefu aðrir lásu þá upp yfirlýsingu á fundinum þar sem þeir sögðu sig úr félaginu. Þetta voru, auk Guðmundar, Friðrik Brekkan, Kristmann Guðmundsson, Gunnar M. Magnúss, Kjartan J. Gíslason, Sigurður Helgason, Ármann Kr. Einarsson, Þórir Bergsson, Óskar Aðalsteinn Guðjónsson, Davíð Stefánsson, Elínborg Lárusdóttir og Jakob Thorarensen. Þau stofnuðu síðan Félag íslenskra rithöfunda 29. apríl og gáfu út safnritið Dynskóga síðar sama ár.

Aðrir kunnir félagar í FÍR urðu síðar m.a. Gunnar Dal, Helgi Sæmundsson, Matthías Johannessen og Indriði G. Þorsteinsson

Rithöfundasambandið[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1957 keypti félagið bókmenntatímaritið Eimreiðina og gaf út til 1975. Sama ár var Rithöfundasamband Íslands stofnað sem samstarfsvettvangur félaganna tveggja og aðili að Bandalagi íslenskra listamanna fyrir þeirra hönd. Félögin sameinuðust um að fordæma dómana yfir Andrej Sinjavskíj og Júlíj Daníelj 1968 og áttu samstarf um samningu ýmissa ályktana Rithöfundasambandsins um hagsmunamál rithöfunda.

Brokkgeng sameining[breyta | breyta frumkóða]

Frá 1972 var farið að ræða sameiningu félaganna tveggja, ekki síst vegna almennrar óánægju með kjaramál íslenskra rithöfunda sem voru bágborin miðað við kjör rithöfunda annars staðar á Norðurlöndunum. Ekki gekk það þó þrautalaust og upp komu miklar deilur í tengslum við meiðyrðamál sem nokkrir af forsvarsmönnum Varins lands höfðuðu gegn Þjóðviljanum 1974. Meðal þeirra sem höfðu sig í frammi í Þjóðviljanum var Sigurður A. Magnússon, formaður Rithöfundasambandsins.

Árið 1974 var gamla Rithöfundasambandið leyst upp og Rithöfundafélag Íslands lagt niður um leið og nýtt Rithöfundasamband var stofnað á Norrænu rithöfundaþingi í Norræna húsinu 12. apríl. Félag íslenskra rithöfunda ákvað þó að leggja sjálft sig ekki niður, þótt félagar þess væru nú flestir einnig félagar í hinu nýja sambandi.

Deilur um launasjóðinn[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að Rithöfundasambandið varð að einu stéttarfélagi rithöfunda 1974 urðu enn deilur vegna Launasjóðs rithöfunda árið 1982 þar sem félagar í FÍR töldu skipulega fram hjá sér gengið og að margir rithöfundar hefðu sagt sig úr sambandinu vegna þessa. Sambandið væri því í raun klofið. Formaður rithöfundasambandsins, Njörður P. Njarðvík, sagði þá að FÍR hefði engan samningsrétt fyrir hönd rithöfunda.

1991 til 1997 veitti félagið bókmenntaverðlaunin Davíðspennann (kenndan við Davíð Stefánsson) árlega á afmæli skáldsins 21. janúar.