Eyvindarstaðaheiði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Eyvindarstaðaheiði er heiðaflæmi og afréttarland sem liggur á milli Blöndu í Austur-Húnavatnssýslu og Vestari-Jökulsár í Skagafjarðarsýslu og nær frá Hofsjökli niður að heimalöndum jarða í Skagafirði og Húnavatnssýslu.

Eyvindarstaðaheiði er austust heiðanna sem ná yfir hásléttuna norður af Langjökli og Kili og liggur Auðkúluheiði vestan hennar en austan hennar er Hofsafrétt. Heiðin tilheyrði jörðinni Eyvindarstöðum í Blöndudal og dregur nafn af henni. Hún er sameiginlegt upprekstrarland þeirra sveita í Húnavatnssýslu og Skagafirði sem að henni liggja.

Landslag á heiðinni vestanverðri er mótað af jöklum og víða hulið þykkum jökulruðningi og setlögum. Þar er heiðin flatlend og sléttlend og víða ágætlega gróin. Þar er hún víðast í 400-500 metra hæð yfir sjávarmáli. Vesturhluti heiðarinnar liggur norður með Blöndudal og Svartárdal í Húnavatnssýslu og endar í hálsinum sem skilur dalina að. Austurhluti heiðarinnar er hálendur að mestu, grýttur og gróðurlítill, en inn í hann skerast nokkrir dalir.

Allmargar ár og lækir renna um heiðina. Austast er Vestari-Jökulsá, sem kemur upp í nokkrum kvíslum við Hofsjökul og rennur í djúpu gili um Goðdaladal niður í Vesturdal. Svartá í Skagafirði kemur upp í Svartárpollum og rennur niður í botn Svartárdals. Svartá í Húnavatnssýslu kemur upp í svonefndum Bugum og heitir ýmsum nöfnum framan af en eftir að hún kemur niður í Svartárdal kallast hún Svartá. Hún fellur í Blöndu þar sem Svartárdalur og Blöndudalur mætast. Á vesturmörkum heiðarinnar er Blanda. Hún kemur upp í mörgum kvíslum og einnig falla í hana margar þverár, svo sem Strangakvísl, Haugakvísl og Galtará.

Hluti Eyvindarstaðaheiðar og Auðkúluheiðar fór undir Blöndulón sumarið 1991. Lónið er 57 ferkílómetrar að stærð og er yfirborð þess í 500 metra hæð yfir sjávarmáli.

Um Eyvindarstaðaheiði lágu löngum fjölfarnar leiðir úr Skagafirði, Svartárdal og Blöndudal, bæði suður Kjalveg og vestur Stórasand.

Blöndulón á Eyvindarstaðaheiði og Auðkúluheiði er nú eitt stærsta stöðuvatn Íslands.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Frá óbyggðum. Arnarvatnsheiði, Kjalvegur og Eyvindarstaðaheiði. Réttur, 13. árgangur 1928“.