Eyjólfur Kársson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Eyjólfur Kársson (d. 1222) var íslenskur bóndi á Sturlungaöld og einn helsti kappinn í liði fylgismanna Guðmundar Arasonar biskups. Hann var Húnvetningur og bjó fyrst í Vatnsdal. Þar átti hann í erjum við Miðfirðinga sem tengdust ekkju sem hann átti vingott við. Snorri Sturluson kom á sættum og Eyjólfur fór vestur í Arnarfjörð og giftist þar Herdísi, dóttur Hrafns Sveinbjarnarsonar á Eyri. Hann settist að á Rauðasandi og lenti þar í deilum við Gísla Markússon í Saurbæ, sem „þóttu fylgdarmenn Eyjúlfs glepja konur þær, er honum gazt at“, og urðu blóðug átök á milli þeirra. Eyjólfur flutti síðar út í Flatey á Breiðafirði 1217. Þar kom Aron Hjörleifsson til hans.

Haustið 1218 tók Arnór Tumason Guðmund biskup á Hólum og hafði hann í stofufangelsi í Ási um veturinn en lét draga hann á börum suður á Hvítárvelli um vorið. Eyjólfur frétti af þessu, þótti biskup hart leikinn, kom að næturlagi að Hvítárvöllum, bjargaði biskupi og fór með hann út í Flatey. Þar var biskup um veturinn en vorið 1220 fór Eyjólfur með honum norður í land og var þar meðal annars í Helgastaðabardaga. Sumarið 1221 var biskup á Hólum með lið sitt en þá kom Tumi Sighvatsson og hrakti hann burt. Fór biskup út í Málmey og var þar um veturinn og voru Eyjólfur og Aron með honum ásamt fleirum. 4. febrúar fóru biskupsmenn að Hólum og drápu Tuma og flúðu svo til Grímseyjar eftir páska. Þangað komu Sighvatur og Sturla sonur hans í Grímseyjarför að hefna Tuma og voru Eyjólfur og Aron helst fyrir vörninni. Eyjólfur bjargaði Aroni en lét sjálfur lífið og er sagt að vörn hans hafi þótt afar frækileg; öxi hans var höggvin sundur en þá varðist hann með árum og voru fjórar höggnar sundur fyrir honum áður en hann féll.