Eleanor Roosevelt

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Eleanor Roosevelt
Eleanor Roosevelt, 1932.
Formaður mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna
Í embætti
29. apríl 1946 – 30. desember 1952
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurCharles Malik
Forsetafrú Bandaríkjanna
Í embætti
4. mars 1933 – 12. apríl 1945
ForsetiFranklin D. Roosevelt
ForveriLou Henry Hoover
EftirmaðurBess Truman
Persónulegar upplýsingar
Fædd11. október 1884
New York-borg, New York, Bandaríkjunum
Látin7. nóvember 1962 (78 ára) New York-borg, New York, Bandaríkjunum
StjórnmálaflokkurDemókrataflokkurinn
MakiFranklin D. Roosevelt (g. 1905; d. 1945)
BörnAnna Eleanor, James Franklin, Elliott Franklin, Delano Jr., John Aspinwall
StarfStjórnmálamaður, ríkiserindreki, aðgerðasinni
Undirskrift

Anna Eleanor Roosevelt (11. október 18847. nóvember 1962) var bandarískur stjórnmálaleiðtogi sem nýtti sér óspart stöðu sína sem forsetafrú Bandaríkjanna til að berjast fyrir hugsjónum eiginmanns síns, Franklin D. Roosevelt, auknum borgararéttindum og mannréttindum. Hún átti þátt í því að Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar eftir seinni heimsstyrjöldina og var formaður nefndarinnar sem lagði fram drög að Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna 1948.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Eleanor Roosevelt fæddist í New York árið 1884 til auðugrar og voldugrar fjölskyldu.[1] Eftir dauða foreldra hennar flutti Eleanor fyrst til ömmu sinnar en var síðan tekin í fóstur af föðurbróður sínum, Theodore Roosevelt. Eleanor hlaut strangt uppeldi hjá ömmu sinni[1] og ferðaðist mikið um Bandaríkin, Mexíkó og Evrópu með henni og síðar með Theodore. Hún varð því snemma velkunnug siðum og menningum ýmissa þjóða.[2] Eleanor giftist frænda sínum í fimmta lið, Franklin D. Roosevelt, árið 1905.[1]

Franklin var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 1933 og Eleanor varð því forsetafrú. Eleanor lét mikið að sér kveða í þeirri stöðu – hún varð meðal annars fyrst bandarískra forsetafrúa til þess að boða blaðamenn á fund sinn og skrifaði daglega blaðapistla undir titlinum My Day (íslenska: Dagurinn minn).[1] Hún varð einnig fyrst forsetafrúa í Bandaríkjunum til þess að flytja reglulega fyrirlestra, bæði á mannfundum og í útvarpi.[1] Þar sem Franklin var þjáður af lömunarveiki gerðist Eleanor nokkurs konar „augu og eyru“ forsetans og ferðaðist víða um Bandaríkin í hans nafni á meðan hann sat fastur í hjólastól sínum. Mörg af uppbyggingarverkefnum Franklins (New Deal) komu til vegna ferða konu hans. Í seinni heimsstyrjöldinni ferðaðist Eleanor að víglínunum bæði í Evrópu og Suður-Kyrrahafi og heimsótti hermenn í umboði forsetans.[1]

Franklin lést árið 1945, stuttu áður en sigur var unninn í styrjöldinni. Eftirmaður hans á forsetastól, Harry S. Truman, útnefndi Eleanor í desember sama ár fulltrúa í sendinefnd Bandaríkjanna á fyrsta Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Roosevelt tók sæti í nefnd sem fjallaði um félags-, menningar- og mannúðarmál.[3] Þar lenti hún snemma í deilum við fulltrúa Sovétmanna um réttindi flóttafólks sem hafði hrakist frá heimkynnum sínum í styrjöldinni. Roosevelt færði rök fyrir því að ekki væri hægt að neyða fólk sem hefði hrakist að heiman til að snúa aftur á heimaslóðir vegna breyttra aðstæðna og mannúðarsjónarmiða. Tillaga Sovétmanna, sem vildu flytja alla flóttamenn til síns heima, var felld fyrir tilstilli hennar.[3]

Roosevelt var í kjölfarið beðin um að taka þátt í sérnefnd sem skyldi móta vinnubrögð og koma á fastanefnd um mannréttindamál.[3] Hún var umsvifalaust kosinn formaður undirbúningsnefndarinnar eftir að henni var komið á fót. Mannréttindanefndin tók til starfa í janúar árið 1947 og Roosevelt var aftur kjörin formaður. Nefndin vann í tvö ár að því að semja Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Yfirlýsingin var samþykkt á fundi Allsherjarþingsins þann 10. desember árið 1948.[3]

Roosevelt sat sem fulltrúi Bandaríkjanna í Sameinuðu þjóðunum og talaði fyrir lýðræðishyggju til ársins 1952, en þá leysti Dwight D. Eisenhower Bandaríkjaforseti hana frá störfum.[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 „Frú Eleanor Roosevelt – Fremsta kona Bandaríkjanna“. Samtíðin. 1. apríl 1955. bls. 13-16.
  2. Kristín L. Skúlason (1. janúar 1963). „Nokkur orð um Eleanor Roosevelt“. Árdís. bls. 51-55.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 Elín Pálmadóttir (9. desember 1984). „Án hennar enginn Mannréttindasáttmáli“. Morgunblaðið. bls. 22-23.
  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.