Einar Jónsson dannebrogsmaður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Einar Jónsson (9. júlí 17546. desember 1845) fæddist í Miðdalsgröf á Ströndum og lést á Kollafjarðarnesi.

Einar braust úr sárri fátækt í álnir og gerðist stórbóndi í Strandasýslu á 18. og 19. öld. Einar var snemma atorkusamur og hneigður fyrir búsýslu og var staðráðinn í að sigla til annarra landa og komst það svo langt að hann var búinn að fá far með skipi, en þegar hann var ferðbúinn og ætlaði að fara á bak hesti sínum, sá hann að móðir hans grét, - það þoldi hann ekki, hætti við ferðina og fór aldrei. Þegar Einar kom að Kollafjarðarnesi urpu nokkrar æðarkollur í hólma einum. Óx varpið svo mikið að þau fengu 100 pund af dún úr hólmanum.

Fyrri kona Einars var Ragnheiður Jónsdóttir, ættuð úr Skagafirði, seinni kona var Þórdís Guðmundsdóttur (f. um 1777, d. 31. júlí 1861). Byrjuðu þau búskap sinn að Klúku og búslóð þeirra var öðru megin á hesti, en hinum megin var barnsvagga með barni í. Þar voru þau í tvö ár en hrökkluðust þaðan nauðug og þá gaf Einar hið fræga loforð sitt. Ragnheiður var skörungur mikill og hjálpfús við alla þá, sem áttu bágt. Ef þau urðu þess vör, að barn væri einhversstaðar haft útundan, tóku þau það til sín og ólu upp. Árið 1800 eru á heimili þeirra fjögur tökubörn 2-11 ára. Ragnheiður kona Einars lést 30. sept. 1806. Þórdís Guðmundsdóttir var komin undir þrítugt og hafði lengi verið vinnukona á Kleifum. Nótt eina dreymdi hana að til hennar kæmi ókunnugur maður og segði við hana: "Láttu ekki liggja illa á þér. Kaupið er Kollafjarðarnes" Hún gerðist þjónustustúlka hjá Einari og varð síðan seinni kona hans. Þegar þau giftust 1809 var Þórdís 23 árum yngri. Faðir Einars var Jón Brynjólfsson hreppstjóri í Tungusveit og bóndi í Miðdalsgröf og Heydalsá í Strandasýslu. Móðir hans var Þuríður Ólafsdóttir systir Eggerts í Hergilsey. Þau áttu mörg börn og var systir Einars Valgerður langamma Guðbjargar Jónsdóttur í Broddanesi sem skrifaði Gamlar Glæður 1943.

Börn Einars voru Ásgeir Einarsson, alþingismaður og bóndi á Kollafjarðarnesi, Magnús Einarsson á Hvilft, bóndi að Hvilft í Önundarfirði, Guðmundur Einarsson, bóndi á Kleifum, Torfi Einarsson, alþingismaður og bóndi á Kleifum, Jón Einarsson, bóndi og skipstjóri á Sveinseyri við Dýrafjörð og Ragnheiður Einarsdóttir kona Sakaríasar bónda á Heydalsá og Kollafjarðarnesi en móðir Guðlaugar Sakaríasdóttur konu Torfa Bjarnasonar í Ólafsdal. Einar fékk lærðan mann til að kenna sonum sínum, en óþarfi þótti honum það, þegar Ragnheiður dóttir hans vildi líka fá að læra.

Með gjafabréfi 20. maí 1818 gaf Einar jörðina Gróustaði í Geiradal Barðastrandasýslu í til fátækra bænda sem urðu fyrir áföllum. Gjafabréfið hófst með orðunum „Efndanna er vant, þá heitið er gert“. Árið 1780 hafði hann, þá bláfátækur leiguliði á jörð sem hann varð að yfirgefa, gefið það heit að ef hann eignaðist tvær tilnefndar jarðir í Tungusveit, myndi hann gefa aðra þeirra til fátækra. Þetta heit efndi hann, þótt hann hafi ekki eignast þessar tilgreindu jarðir. Einar áskildi að ráðvandir, frómlyndir fátæklingar njóti hagnaðar af gjöfinni. Fráskildir hlunnindum þessum séu vanþrifa búendur, innfluttir í hreppinn og þeir innfæddir, sem ekkert duglegt aðhafast eða eyða því, sem þeim bætist, til að kaupa tóbak og annan óþarfa. Ásgeir tók við búi af föður sínum vorið 1838. Einar andaðist 91. árs í Kollafjarðarnesi og Þórdís dó 31. júlí 1861 á Þingeyrum. Frá þeim er allmikill ættbálkur kominn. Einar var sæmdur dannebrogsorðunni 1815.

Einar var jarðsettur að Felli í Strandasýslu og á legsteini hans, sem er úr smíðajárni er áletrað:

HJER ER LEIDDUR ALDINN MÆRINGUR
EINAR JÓNSSON
FÆDDUR 9. JÚLÍ 1754
ANDAÐUR 6. DESEMBER 1845
DANNEBROGSMAÐUR 1815
FYRRI KONA HANS RAGNHEIÐUR JÓNSDÓTTIR 1778
FÆDDI HONUM EINA DÓTTUR
SÍÐARI KONA ÞÓRDÍS GUÐMUNDSDÓTTIR 26. NÓVEMBER 1809
ÁTTU SAMAN SEX BÖRN
SÁ VAR ÞURFENDA ÞRAUTAVINUR,
HOLLUR, HUGSPAKUR, HEPPINN Í RÁÐUM,
HJERAÐSHEFÐ OG STYRKUR, HEIÐUR BÆNDA.
SÁ VAR NÝTMENNI, ER NÁUNGANS GAGNI
SINTI JAFNFRAMT SÍNU EIGIN,
OG AUÐMAÐUR, ÁN OFMETNAÐAR.