Djúpalónssandur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Djúpalónssandur
Aflraunasteinarnir Fullsterkur, Hálfsterkur, Hálfdrættingur og Amlóði

Djúpalónssandur er bogamynduð. grunn vík, með sandi í botni og klettakví þar upp af. Vík þessi er með ströndinni milli Einarslóns og Dritvíkur, fyrir neðan Beruvíkurhraun og fyrir vestan Purkhóla á vesturströnd Snæfellsness. Hraunið gengur í sjó fram og djúpar gjár ganga inn í það þar sem brimið étur sig inn í hraunið. Við sandinn er sérkennilegur klettur sem kallast Gatklettur og við hann er tjörnin Svörtulón. Djúpalónssandur var verstoð og þar þótti reimt og heitir hellir einn þar Draugahellir. Djúpalónssandur er um 10 km frá Hellnum. Þarna er einnig Tröllakirkja, sérkennileg hellisglufa inn í hamravegginn.

Vinsæl og auðveld gönguleið liggur á milli Djúpalónssands og Dritvíkur. Hún er tæplega 1 km. Á Djúpalónssandi eru steintök sem vermenn reyndu afl sitt á, en til þess að fá pláss á báti þurfti viðkomandi að geta lyft í það minnsta steininum Hálfdrættingi. Fjórir aflraunasteinar liggja undir Gatkletti þegar komið er niður á sandströndina. Þeir eru Fullsterkur 155 kg, Hálfsterkur 100 kg, Hálfdrættingur 49 kg og Amlóði 23 kg. Frá aflraunasteinum þessum er stutt yfir í sjálfa víkina og þar fyrir ofan malarkambinn eru ferskvatnslón þau tvö og djúp sem víkin dregur nafn sitt af.

Breski togarinn Epine GY 7 frá Grimsby fórst fyrir utan Djúpalónssand í mars 1948 og liggur járn úr skipinu á við og dreif um sandinn. Fimm skipsverjar lifðu slysið af en 14 fórust.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Landslagslýsing (undir jökli) Geymt 10 mars 2007 í Wayback Machine
  • Gönguleiðir
  • Vesturland
  • „Vesturland.is - Afþreying og staðir“. Sótt 15. júlí 2010.
  • Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson og Páll Líndal (1982). Landið þitt Ísland, A-G. Örn og Örlygur.
  • Björn Hróarsson (1994). Á ferð um landið, Snæfellsnes. Mál og menning. ISBN 9979-3-0853-2.


  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.