Djákninn á Myrká

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Djákninn og Guðrún ríða í tunglskininu, tréstunga eftir Théodore Meyer-Heine eftir teikningu eftir Jules Worms

Djákninn á Myrká er ein frægasta íslenska draugasagan og segir frá djákna einum að Myrká í Eyjafirði. Nafns hans er ekki getið en hann átti í tygjum við konu eina er Guðrún hét og kom hún frá Bægisá.

Saga[breyta]

Djákninn hafði boðið Guðrúnu til jólagleði en daginn fyrir það lést hann af slysförum er brú ein hrundi undan honum og hesti hans. Daginn eftir kemur þó maður ríðandi á hesti og sækir Guðrúnu og átti Guðrún erfitt með að greina andlit hans þar sem tungl óð í skýjum og dró ýmist frá eða fyrir. Á leiðinni voru þau bæði þögul en er þau komu til Hörgár mælti djákninn:

„Máninn líður,
dauðinn ríður;
sérðu ekki hvítan blett
í hnakka mínum,
Garún, Garún?“

Guðrún ku hafa lyft upp hatti hans og séð glitta í höfuðkúpu djáknans. Þegar komið var að Myrká stigu djákninn og Guðrún af hestinum og djákninn mælti:

„Bíddu hérna, Garún, Garún,
meðan eg flyt hann Faxa, Faxa,
upp fyrir garða, garða.“

Djákninn leiddi hest sinn inn í kirkjugarð og varð Guðrún vitni að því er hann opnaði gröf eina og varð afar skelkuð. Hún tekur þá til ráðs að grípa í klukkustrenginn en í sömu andrá var gripið í annan handlegg hennar. Það varð henni til happs þó að hún hafði einungis tíma til að fara í aðra hempuermina og gekk hempan í sundur um axlarsauminn á þeirri erminni. Það síðasta sem Guðrún sá var að djákninn steyptist ofan í gröfina opnu með hempuermina hennar og sópaðist moldin ofan í gröfina frá báðum hliðum.

Djákninn sótti á Guðrúnu sömu nótt og í tvær vikur eftir þann atburð gat Guðrún aldrei verið ein og varð að vaka yfir henni. Galdramaður var fenginn er kom frá Skagafirði og brá hann á það ráð að bíða í felum eftir komu djáknans. Þegar djákninn kom loks, setti galdramaðurinn hann niður með særingum og velti stórum steini yfir hann og er djákninn sagður hvíla þar enn í dag.

Tenglar[breyta]