Sagan af Dimmalimm

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Dimmalimm)
Forsíða af Sögunni um Dimmalimm

Sagan af Dimmalimm er myndskreytt ævintýri eftir Mugg (Guðmund Pétursson Thorsteinsson). Hann samdi bókina og teiknaði handa systurdóttur sinni Helgu Egilson árið 1921 en hann var þá á leið milli Ítalíu og Íslands með flutningaskipi. Sagan var gefin út og varð vinsæl barnabók. Dimmalimm hefur einnig verið sett upp sem leikrit og sem ballett. Jóhannes úr Kötlum samdi ljóðin Guðsbarnaljóð um Mugg og Atli Heimir Sveinsson samdi tónlist við leikritið um Dimmalimm.

Efni sögunnar[breyta | breyta frumkóða]

Í sögubyrjun leikur kóngsdóttirin Dimmalimm sér við vatn í garði við konungshöll. Á vatninu synda fjórir svanir sem hún gefur brauð og góðgæti. Einn daginn fær hún leyfi til að fara út úr garðinum er þá forvitin að sjá hvað er öðruvísi fyrir utan. Hún sér umhverfi þar sem eru engin tré og engin hús en grænar grundir og blá fjöll. Hún kemur að vatni þar sem er stór hvítur svanur sem henni þykir strax afar vænt um. Hún vitjar svansins á hverjum degi og hann kemur úr vatninu og þau sitja saman. Einn daginn finnur hún svaninn dáinn. Dimmalimm syrgir hann og grætur löngum stundum við vatnið. Til hennar kemur kóngssonurinn Pétur og huggar hana og segir henni að hann hafi verið svanurinn og þá í álögum sem galdranorn lagði á hann og sem hann losnaði ekki úr fyrr en hann hitti þæga og góða stúlku sem þótti vænt um hann. Dimmalimm og Pétur giftast og verða kóngur og drottning.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]