Diðrik Píning

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Diðrik Píníng)
Diðrik Píning og Hans Pothorst á Haus des Glockenspiels í Bremen í Þýskalandi. Mynd frá 1934. Hér gerir listamaðurinn ráð fyrir að þeir hafi komið til Norður-Ameríku og hitt þar indíána fyrir.

Diðrik Píning (d. 1491) var sæfari og sjóræningi í þjónustu dönsku konunganna Kristjáns 1. og Hans á seinni hluta 15. aldar og um tíma hirðstjóri eða höfuðsmaður á Íslandi. Við hann er kenndur svonefndur Píningsdómur. Erlendis er hann þekktastur vegna kenninga um að hann kunni að hafa komið til Ameríku á 8. áratug 15. aldar.

Uppruni[breyta | breyta frumkóða]

Fátt er í raun vitað um Diðrik Píning og til dæmis er alls óvíst hvort hann var Norðmaður eða Þjóðverji. Í grein í Historisk tidsskrift 1882 kemur fram að nafnið Pining eða Pinning er gamalt í Noregi og þar er nefndur Einar Pinning í Björgvin árið 1304 og virðist hafa verið aðalsmaður. Hann átti soninn Hákon Píning.[1] Þýskir ættfræðingar telja Diðrik Píning aftur á móti fæddan í Hildesheim í Þýskalandi um 1428. Diðrik Píning tengdist hins vegar árið 1490 stóru erfðamáli í Noregi og bendir það til þess að hann hafi verið Norðmaður.[2]

Diðrik Píning er sagður hafa verið tíma í þjónustu Hamborgarkaupmanna og stýrði þá skipi sem elti uppi ensk kaupskip á Norður-Atlantshafi. Einnig er sagt að hann og félagi hans, Hans Pothorst, hafi ráðist á skip Hansakaupmanna og rænt þau. Seinna gengu þeir í þjónustu Danakonunga.[3]

Landkönnun[breyta | breyta frumkóða]

Dr. Sofus Larsen setti fram þá kenningu í bók árið 1925 að Diðrik Píning hefði um 1473 verið settur til að stýra þýsk-dönskum leiðangri sem kostaður var af Portúgölum og átti að kanna Grænland og önnur lönd í norðri. Hans Pothorst var með í leiðangrinum og einnig portúgölsku könnuðirnir João Vaz Corte-Real og Álvaro Martins. Siglingafræðingur leiðangursins á að hafa verið hinn þjóðsagnakenndi Johannes Scolvus. Sumir vilja meina að Kristófer Kólumbus hafi einnig verið í þessum leiðangri.[4] Larsen taldi að leiðangurinn hefði siglt af stað frá Björgvin, farið til Íslands og Grænlands og að lokum fundið Terra do Bacalhau, Þorskaland, sem liklega hefði verið Nýfundnaland eða Labrador. Corte-Real var skipaður landstjóri á Azoreyjum 1474 og Píning hirðstjóri á Íslandi 1478 og taldi Larsen að það hefðu verið laun þeirra fyrir landafundina.

Engar samtímaheimildir segja beinlínis frá þeissum leiðangri en sagnir eru um að Corte-Real hafi uppgötvað Terra do Bacalhau og vitað er að Píning og Pothorst voru sendir til Íslands 1473 og áttu þeir einnig að freista þess að kanna strendur Grænlands og leita norrænna manna þar. Þeir komu til Grænlands 1476, líklega nálægt Angmassalik, en fundu þar aðeins fjandsamlega Inúíta. Hugsanlegt er að þeir hafi farið lengra en engar heimildir eru til sem staðfesta það.

Hirðstjóri og sjóræningi[breyta | breyta frumkóða]

Diðrik Píning var gerður að hirðstjóra á Íslandi árið 1478, hugsanlega þó aðeins að sunnan og austan, og gegndi því starfi að minnsta kosti til 1481, líklega til 1483.[5] Honum var falið að berjast gegn Englendingum, sem seildust æ meira til yfirráða á Íslandi og höfðu fáum árum fyrr drepið Björn Þorleifsson hirðstjóra í Rifi.[6] Líklega hefur þess vegna þótt tilvalið að gera sjóræningjaforingja að hirðstjóra.

Eftir að hirðstjórnartíðinni lauk sigldu þeir Píning og Pothorst um Norður-Atlantshaf og stunduðu sjórán á vegum Danakonungs. Árið 1484 náðu þeir til að mynda þremur spænskum eða portúgölskum skipum sem þeir færðu Hans konungi til Kaupmannahafnar. Þeir herjuðu einnig á Hansaborgir í félagi við Jakob junkara, bróðurson Hans konungs.[7] Af öllu þessu varð Píning óvinsæll og hataður víða.

Árið 1486 fylgdi Diðrik Píning konungi til Björgvinjar og er þá titlaður aðmíráll danska flotans. Árið 1487 stýrði hann dönskum flota sem hertók Gotland. Í júlí 1489 var hann í hópi norskra aðalsmanna sem hylltu Kristján, elsta son konungs, sem ríkiserfingja Noregs í Kaupmannahöfn.[8]

Hirðstjóri öðru sinni[breyta | breyta frumkóða]

Hans konungur samdi frið við Englendinga snemma árs 1490 og viðurkenndi rétt þeirra til að veiða fisk við Ísland og stunda þar verslun, ef þeir greiddu af þvi gjöld og fengju leyfi hjá konungi. Í samkomulaginu er þó tekið fram að Diðrik Píning og annar aðmíráll, Bartod Busch, falli ekki undir það, líklega vegna sjórána þeirra. Þar er Diðrik nefndur hirðstjóri á Íslandi og raunar einnig í bréfi frá 1488 og hefur hann líklega fengið embættið eftir að Þorleifur Björnsson1486. Hann mun hafa haft hirðstjórn yfir öllu landinu í þetta skipti.

Þrátt fyrir að vera sjálfur undanskilinn í friðargerðinni lagði hann hana fyrir Alþingi um sumarið við litla hrifningu innlendra höfðingja, sem sáu í henni samkeppni um vinnuafl. Því varð úr að 1. júlí 1490 var gerð samþykkt sem síðan nefndust Píningsdómur og var í raun ógilding á samkomulagi konungs og Englendinga. Kom þar meðal annars fram að útlendingum væri bönnuð veturseta eins og verið hafði og að landsmenn væru skyldir að vera í vist hjá bændum ef þeir hefðu ekki efni á að reisa sjálfir bú.[9] Óvíst er hve mikinn þátt Diðrik átti í dómnum sem kenndur er við hann en vegna hans hafði hann lengi heldur jákvætt orðspor á Íslandi.

Diðrik Píning fékk jafnframt Vardøhus að léni árið 1490. Hann lést árið 1491 og eru óljósar sagnir um að dauðdaga hans hafi borið að með vofeiflegum hætti, jafnvel að hann hafi verið hengdur eða drepinn á annan hátt en allt er óljóst um það.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. [1] Daae, 1882. Historisk tidsskrift
  2. [2] Daae, 1882. Bls. 241.
  3. [3] Daae, 1882. Bls. 234.
  4. [4] Morgunblaðið, 21. október 1995.
  5. [5] Daae, 1887. Bls. 235.
  6. [6] Safn til sögu Íslands II. Bls. 658.
  7. [7] Daae, 1887. Bls. 238.
  8. [8] Daae, 1882. Bls. 241.
  9. [9][óvirkur tengill] Vísindavefurinn. Skoðað 24. október 2010.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Didrik Pining. Store norske leksikon. Skoðað 24. október 2010“.
  • „Historisk tidsskrift. Kristiania, 1882“.
  • „Hirðstjóraannáll. Safn til sögu Íslands, Kaupmannahöfn 1886“.
  • „Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað var Píningsdómur?". Vísindavefurinn 9.5.2003. (Skoðað 24.10.2010)“.



Fyrirrennari:
Hinrik Daníel (?)
Hirðstjóri
ef til vill með Hinrik Daníel til 1480
og með Þorleifi Björnssyni 1481-1483
(14781483 (?))
Eftirmaður:
Þorleifur Björnsson
Fyrirrennari:
Þorleifur Björnsson
Hirðstjóri
(14781483 (?))
Eftirmaður:
Ambrosius Illiquad