Daniel Willard Fiske

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Daniel Willard Fiske

Daniel Willard Fiske (11. nóvember 183117. september 1904) var bandarískur ritstjóri, fræðimaður og Íslands- og skákáhugamaður. Hann er frægastur hér á landi fyrir að hafa gefið Grímseyingum tafl og bókakost og hvatt skólapilta Lærða skólans í Reykjavík til að stofna með sér nýtt lestrarfélag, sem nefnt var eftir heimabæ Fiskes, Íþaka.

Námsár og fyrstu störf[breyta | breyta frumkóða]

Fiske fæddist í Ellisburgh í New York-fylki. Hann las norrænu við háskólana í Kaupmannahöfn og Uppsölum, en hvarf að því loknu til New York árið 1852 og gerðist bókavörður við Astor-bókasafnið og gegndi þeirri stöðu í sjö ár. Árin 1859-1860 var hann aðalritari bandaríska landafræðifélagsins og á þeim árum skrifaði hann bók um fyrsta skákþingið í Bandaríkjunum og gaf síðan út, ásamt Paul Morphy fyrsta skáktímaritið þar í landi, American Chess Monthly (1857-1861).

Árin 1861-1862 var Fiske aðstoðarsendiherra Bandaríkjanna í Vínarborg, en 1864 gerðist hann ritstjóri Syracuse Daily Journal og var við það blað í tvö ár, og 1867 var hann ritsjóri blaðs sem heitir Hartford Courant. En árið 1868 var hann gerður að prófessor í norrænum málum við Cornell-háskóla í Ithaca og jafnframt bókavörður við háskólabókasafnið.

Fyrsta Íslandsferðin[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1879 kom Fiske til Íslands og ferðaðist hér um. Síðan fór hann til Egyptalands og Ítalíu og kvæntist þar ríkri konu. Sagði hann af sér prófessorsembættinu við Cornellháskólann 1883 og settist að í Flórens á Ítalíu. Tók hann nú að gefa sig eingöngu við bókfræði. Hafði fjárhagur hans jafnan verið þröngur fram að þessu, en þó hafði hann þá þegar lagt hinn fyrsta grundvöll til hins mikla safns sín.

Árið 1899 dvaldi hann lengi í Kaupmannahöfn til þess að fullkomna safn sitt af íslenskum bókum, og frá þeim tíma og til dánardægurs, lagði hann mesta áherslu á hið íslenska bókasafn sitt. Hann fékk síðar tvo Íslendinga, Halldór Hermannsson og Bjarna Jónsson síðar bankastjóra á Akureyri, til að aðstoða sig við að gera skrá yfir safn sitt, og unnu þeir hjá honum í heilt ár suður í Flórens. Sú skrá varð þó ekki fullgerð. Fiske gaf út viðauka við skrá um þær íslenskar bækur, sem eru í British Museum og prentaðar eru á Íslandi á árunum 1578-1844 (Bibliographical Notices 1, 4, 5 og 6).

Skákáhugi og bókagjafir[breyta | breyta frumkóða]

Fiske að tefla.

Fiske var allra manna fróðastur um sögu skáklistarinnar og átti ágætt safn af skákritum. Það gaf hann Landsbókasafni Íslands árið 1900 (um 2.000 bindi) og jafnframt reyndi hann að vekja áhuga Íslendinga fyrir skák með því að gefa út skákrit á íslensku, Í uppnámi. Íslenskt skákrit, 1901-1902, kennslukver í skák og safn af skákþrautum. Fyrir áhrif hans voru stofnuð mörg taflfélög á Íslandi. Grímseyingar höfðu þá um langt skeið verið bestu skákmenn landsins, enda var skák aðaldægrastytting þeirra á vetrum. Þetta þótti Fiske afar merkilegt og sýndi hann Grímseyingum margan vott vináttu sinnar. Hann gaf þeim t.d. bókasafn og hann arfleiddi þá að 12.000 dollurum og stofnaði með þeim sjóð, sem verja skal eyjarskeggjum til menntunnar og til jarðabóta á eyjunni.

Árið 1900 byrjaði Fiske á stóru ritverki um sögu skáklistarinnar á Íslandi og var fyrsta bindi þess nær fullprentað þegar hann dó, Chess in Iceland and in Icelandic Litterature, Flórens 1905. Árið 1903, þegar hann var í Kaupmannahöfn, gaf hann út litla en góða handbók um Ísland, Mimir, Icelandic Institutions with Adresses.

Fiske-safnið í Cornell-háskólanum[breyta | breyta frumkóða]

Fiske arfleiddi Cornell-háskóla að öllum eigum sínum með því skilyrði að íslenska bókasafninu yrði um aldur og ævi haldið sérstöku, og að bókavörðurinn væri Íslendingur, stúdent frá Reykjavík, og að rentum af 43.000 dollara sjóði, sem hann stofnaði, væri varið til þess að launa bókavörð og kaupa íslenskar bækur, og enn fremur að 900 dollurum væri varið á ári til þess að gefa út rit, sem fjallar um Ísland og hið íslenska safn hans. Halldór Hermannsson sá um flutning á bókasafninu vestur um haf og varð síðan bókavörður þess. Vann hann ötullega við að auka það og fullkomna og gaf út merkar skrár um það.

Willard Fiske safnaði fleiru en íslenskum bókum. Nátengt íslenska safninu er bókasafn hans um rúnir. Einnig dró hann saman eitt besta safn sem til er um ítölsku rithöfundana Dante Alighieri og Francesco Petrarca, og loks safn rita á retó-rómönsku. Þessi sérsöfn gaf hann einnig Cornell-háskóla og eru til sérskrár um þau.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]