Daði Guðmundsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Daði Guðmundsson (um 14951563) eða Daði í Snóksdal var bóndi og sýslumaður á 16. öld. Hann bjó í Snóksdal í Dalasýslu og kom mjög við sögu siðaskiptanna á Íslandi.

Daði var sonur Guðmundar Finnssonar bónda í Snóksdal og konu hans, Þórunnar Daðadóttur, sem var bróðurdóttir Torfa Arasonar hirðstjóra. Árið 1525 giftist hann Guðrúnu, dóttur séra Einars Snorrasonar Ölduhryggjarskálds, sem bjó á Staðarstað, systur Marteins Einarssonar biskups og þeirra Gleraugna-Péturs og Molda-Brands, sem allir voru með helstu foringjum siðaskiptamanna á Íslandi.

Daði hefur sjálfsagt fengið nokkurt fé eftir foreldra sína en hann auðgaðist mjög af eigin rammleik og þótti mikill dugnaðar- og gróðamaður, byggði upp mikið veldi kringum Hvammsfjörð sem byggðist ekki síst á útgerð og fiskverslun. Hann hafði jafnan um sig hóp sveina og átti fullkomin hertygi fyrir þrjátíu til fjörutíu menn.

Daði var kvensamur og féll oft í sektir vegna hjúskaparbrota sinna. Var því mikilsvert fyrir hann að eiga gott samband við Skálholtsbiskup og því vænkaðist hagur hans þegar Marteinn mágur hans var kjörinn biskup eftir lát Gissurar Einarssonar.

Jón Arason biskup áleit þá Daða og Gleraugna-Pétur mág hans helstu andstæðinga sína og sagði einhverntíma að nú hefði hann undir sér allt Ísland nema hálfan annan kotungsson, en það voru þeir Daði og Pétur. Hann bannfærði Daða í janúar 1549. Hann fór svo með her manna vestur og ætlað að handtaka Daða en gat það ekki. Daði þorði þó ekki annað en hafa um sig mikið lið og er sagt að hann hafi haft 50-80 menn undir vopnum í Snóksdal vorið 1549.

Haustið 1550 reið Jón ásamt sonum sínum, Ara og Birni, vestur í Dali, annaðhvort til að reyna að ná Daða á sitt vald eða ná samningum við hann. Þeir fóru þó ekki í Snóksdal, heldur að Sauðafelli, þar sem Daði átti einnig bú. Daði notaði tækifærið og safnaði að sér miklu liði og gerði svo áhlaup á Jón biskup og hans menn í kirkjugarðinum á Sauðafelli og náði þeim fljótlega á sitt vald. Til er frásögn Daða sjálfs af bardaganum og gerir hann þar nokkuð úr hetjulegri framgöngu sinni en lætur þess reyndar ógetið að hann lét menn sína skjóta af byssum inni í kirkjunni sjálfri og hæfði ein kúlan Björn biskupsson í handlegginn.

Eftir að hafa haft feðgana í varðhaldi í rúmlega þrjár vikur kom Daði þeim í hendur umbosðmanns Kristjáns skrifara í Skálholti og þar voru þeir höggnir 7. nóvember um haustið. Er sagt að Daði hafi lengi verið tregur til að samþykkja aftökuna en hafi þó fallist á hana að lyktum.

Eftir siðaskiptin hélt Daði áfram að auðgast og hafði meðal annars umboð Helgafellsklausturjarða um skeið. Síðustu árin sem hann lifði hafði hann bú á fjórum stórjörðum, Snóksdal, Sauðafelli, Knarrarhöfn og Síðumúla í Borgarfirði. Á þessum búum hafði hann árið 1563 62 kýr, 48 geldneyti og á annað þúsund ær og geldfé. Hann átti alls 55 jarðir sem samtals voru 1140 hundruð að dýrleika. Einnig átti hann sex skip sem haldið var til útróðra undir Jökli og á Ströndum. Hann átti í deilum við Staðarhóls-Pál um yfirráð yfir Staðarhóli í Saurbæ og var tregur til að sleppa jörðinni jafnvel þótt konungur hefði dæmt Páli hana.

Daði og Guðrún kona hans áttu aðeins eina dóttur sem upp komst, Þórunni, sem giftist árið 1545 Birni Hannessyni sýslumanni í Bæ á Rauðasandi, syni Hannesar Eggertssonar hirðstjóra og bróður Eggerts Hannessonar lögmanns. Um 1554 hugðust þau flytjast búferlum að Nesi við Seltjörn en drukknuðu á leiðinni. Þrjú ung börn þeirra erfðu því mestallar eignir Daða. Einar, launsonur Daða, er sagður hafa verið trúlofaður Sigríði dóttur Þorleifs Pálssonar lögmanns á Skarði en veiktist daginn áður en hann ætlaði að ríða til brúðkaups þeirra og dó.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Fjárhagur Daða í Snóksdal. Lesbók Morgunblaðsins, 5. ágúst 1928“.