Rómverskar nafnavenjur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Cognomen)

Rómverskar nafnavenjur áttu rætur að rekja til menningar Etrúra.

Nöfn Rómverja, ekki síst yfirstéttarmanna, voru venjulega þrjú: praenomen (fornafn), nomen gentile eða gentilicium (nafn ættarinnar (gens)) og cognomen (fjölskylduheiti eða viðurnefni ættgreinar eða fjölskyldu innan ættar, gens). Stundum var bætt við öðru viðurnefni, sem kallaðist agnomen.

Rómverskar konur báru kvenkynsútgáfu ættarnafns föður síns og voru kenndar við föður sinn með fjölskylduheiti (cognomen) hans í eignarfalli en eiginmans síns ef þær voru giftar. Oft báru þeir einhvers konar viðurnefni sem gaf til kynna hvar í röð systra þær voru. Seint á lýðveldistímanum komu einnig fram kvenkynsútgáfur af fjölskylduheitum (cognomina) feðranna.

Fornöfn[breyta | breyta frumkóða]

Fornöfnin (praenomen) jafngilda nokkurn veginn eiginnöfnum samtímans. Tiltölulega fá fornöfn tíðkuðust meðal Rómverja. Um 40 nöfn voru langalgengust, og um 18 seint á lýðveldistímanum. Í sumum ættum tíðkuðust ekki nema fáein þessara nafna og sum nöfn tíðkuðust jafnvel einungis innan einnar ættar. Ættarfaðirinn, pater familias, nefndi oft börnin eftir sjálfum sér (t.d. Lucius, eða Lucia).

Mörg fornöfn voru gjarnan skammstöfuð með einum eða tveimur stöfum í rituðu máli. Algengustu skammstafanirnar eru: Appius (Ap.), Aulus (A.), Flavius (Fl.), Gaius (C.), Gnaeus (Cn.), Decimus (D.) Lucius (L.), Manius (M'.), Marcus (M.), Publius (P.), Quintus (Q.) Servius (Ser.), Sextus (Sex.), Spurius (Sp.), Titus (T.), Tiberius (Ti.). Nöfnin Primus, Secundus, Tertius, Quartus, Quintus, Sextus, Septimus, Octavius, Nonius, and Decimus merkja (tilsvarslega) „fyrsti“, „annar“, „þriðji“, „fjórði“, „fimmti“, „sjötti“, „sjöundi“, „áttundi“, „níundi“ og „tíundi“ og voru upphaflega gefin öðrum, þriðja, fjórða syni o.s.frv. Síðar meir vru þau notuð án þess að samsvara því hvar í röðinni barnið var: Sextus Pompeius var til dæmis ekki sjötti sonurinn. Ef til vill fóru nöfnin að tákna í staðinn mánuðinn þegar barnið fæddist.

Ættarnöfn[breyta | breyta frumkóða]

Annað nafnið (nomen gentile) er ættarnafn, sem er sameiginlegt allri ættinni. Upprunalegu ættirnar voru komnar af þeim sem stofnuðu borgina. Er fram liðu stundir uxu ættirnar og náðu oft yfir ákveðin landsvæði. Ásamt því sem borgin óx fjölgaði einnig ættum og ættgreinum, þannig að ekki allar ættir og ættgreinar voru komnar af þeim sem upphaflega stofnuðu borgina. Sumar nefndust eftir etrúskum ættum en aðrar eftir ættum annarra nálægra þjóðflokka. Meðal þekktra ættarnafna má nefna Aemilius, Claudius, Cornelius, Domitius, Fabius, Junius, Julius, Pompeius, Antonius og Valerius.

Fjölskylduheiti[breyta | breyta frumkóða]

Þriðja nafnið, fjölskylduheitið (cognomen), var upphaflega persónulegt viðurnefni eða persónulegt nafn, sem greindi að einstaklinga innan hverrar ættar. Cognomina koma ekki fyrir í opinberum skjölum fyrr en um 100 f.Kr. á lýðveldistímanum og á keisaratímanum erfðust viðurnefnin frá föður til sonar og greindu þannig að fjölskyldur innan hverrar ættar. Viðurnefnið var oft valið með hliðsjón af líkamlegum einkennum eða skapgerðareinkennum, stundum með kaldhæðnislegum afleiðingum: viðurnefni Júlíusar Caesars þýddi t.d. loðinn enda þótt hár hans væri farið að þynnast og viðurnefni Tacitusar merkti þögull enda þótt hann væri vel kunnur ræðumaður.

Viðurnefni[breyta | breyta frumkóða]

Öðru viðurnefni, kallað agnomen, var stundum bætt við til að greina betur milli fólks innan einnar og sömu fjölskyldunnar. Mörg voru notuð sem gælunöfn, en sum þeirra erfðust eins og fjölskylduheiti. Meðal annar mætti nefna viðurnefnin Africanus, Asiaticus, Augustus (hjá keisurum), Britannicus, Caligula, Germanicus og mörg önnur. Þessi viðurnefni voru oft dregin af heitum landsvæða þar sem viðkomandi hafði unnið orrustu. Dæmi: Publius Cornelius Scipio Africanus, sigurvegri í orrustunni við Zama í Norður-Afríku árið 202 f.Kr.

Ættleiðing[breyta | breyta frumkóða]

Ættleiðingar voru algengar í Rómaveldi. Þegar maður var ættleiddur inn í aðra fjölskyldu hlaut hann fullt nafn fósturföður síns auk viðurnefnis sem gaf til kynna þá fjölskyldu sem hann fæddist inn í. Dæmi: Publius Cornelius Scipio Aemilianus Africanus, líffræðilegur sonur Luciusar Aemiliusar Paullusar Macedonicusar, sem var ættleiddur Publiusi Corneliusi Scipio, elsta syni Publiusar Corneliusar Scipios Africanusar.

Erlend nöfn[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Rómverjar lögðu undir sig ný lönd utan Ítalíu voru mörg erlend nöfn tekin í notkun. Nýir ríkisborgarar gátu haldið nafni sínu eða hluta af því. Mörg nöfn voru af grískum rótum. Fyrrverandi hermenn af erlendum uppruna tóku sér stundum ættarnafn keisarans og bættu upprunalegu nafni sínu við sem fjölskylduheiti þegar þeir fengu ríkisborgararétt.

Nöfn kvenna[breyta | breyta frumkóða]

Upprunalega voru til kvenkynsútgáfur af fornöfnum en nöfn kvenna samanstóðu líklega af fornafni og ættarnafni.

Er liðið var á lýðveldistímann voru ekki lengur til kvenkynsútgáfur fornafna. Þess í stað nefndust þær einfaldlega kvenkynsútgáfu ættarnafns feðra sinna. Ef þörf var á frekari lýsingu var nafninu fylgt með eignarfalli fjölskylduheitis föðurs eða eiginmans, ef konan var gift. Þannig talar Cicero um konu sem Annia P. Anni senatoris filia (Anniu dóttur P. Anniusar, öldungaráðsmannsins).

Ef dætur voru einungis tvær gátu þeir verið greindar að með nöfnunum major og minor (eldri og yngri). Dætur Marcusar Antoniusar voru Antonia major (amma Nerós keisara) og Antonia minor (móðir Claudiusar keisara). Ef dætur voru fleiri en tvær voru þær einatt aðgreindar með tölusetningu, t.d. Cornelia Quinta, fimmta dóttir Corneliusar.

Seint á lýðveldistímanum urðu einnig til kvenkynsútgáfur að fjölskylduheitum feðranna (t.d., Caecilia Metella Crassi, dóttir Q. Caeciliusar Metellusar og eiginkona P. Liciniusar Crassusar). Stundum fékk þetta nafn smækkunarendingu (t.d. var eiginkona Augustusar, Livia Drusilla, dóttir M. Liviusar Drususar).

Nokkur dæmi eru um það að kona hafi tekið nafn móður sinnar: Arria var dóttir Paetusar og konu hans Arriu (Tac. Ann. 16, 34; Plinius Ep. 3, 6, 10; 7, 19, 3).

Föðurnöfn[breyta | breyta frumkóða]

Á elstu tímum var fornafn og ættarnafn fullt nafn rómversks manns en því fylgdi stundum föðurnafn, sem gaf til kynna faðerni mannsins. Föðurnafn var myndað af fornafni föðurins í eignarfalli og orðinu filius („sonur“) (skammstafað f.). Þannig gæti Rómverji hafa heitið M. Antonius M. f. (Marci filius), það er að segja, Marcus Antonius, sonur Marcusar. Enn fremur var hægt að gefa til kynna nafn afans með orðinu nepos („sonarsonur“) (skammstafað n.), t.d. M. Antonius M. f. L. n. (Marci filius, Lucii nepos), það er að segja, Marcus Antonius, sonur Marcusar sonar Luciusar

Greining á nafni[breyta | breyta frumkóða]

Dæmi um fullt nafn væri: Marcus Aurelius Marci f. Quinti n. tribu Galeria Antoninus Pius, domo Caesaraugusta.

  • praenomen: Marcus
  • nomen gentile: Aurelius (viðkomandi tilheyrir aurelísku ættinni, gens Aurelia)
  • patronimicus: sonur Marcus
  • nafn afa: sonarsonur Quintusar
  • ættbálkur: Galeria (ættbálkur frá Hispaniu)
  • cognomen: Antoninus (úr fjölskyldu Antoninusar)
  • agnomen: Pius (vegna guðrækni)
  • borg: Caesaraugusta (í dag Saragossa á Spáni)

Hversdagslega nefndist fólk annaðhvort fjölskylduheiti sínu eða fornafni og ættarnafni. Til dæmis hefði Marcus Livius Drusus annaðhvort verið kallaður Drusus eða Marcus Livius. Iulia Marciana hefði kallast einfaldlega Iulia. Þessi venja getur valdið erfiðleikum fyrir nútímafræðimenn því ekki er alltaf vitað við hvern er átt.