Charlottenburg-kastali

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Charlottenburg-kastali

Charlottenburg-kastali er stærsti kastalinn sem enn stendur í Berlín. Hann er safn í dag.

Saga kastalans[breyta | breyta frumkóða]

Teehús í kastalagarðinum

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Það var Sophie Charlotte, eiginkona kjörfustans Friðriks III (seinna Friðrik I Prússakonungur), sem lét reisa kastalann. Hún hafði fengið gefins þorpið Lietze, sem var nokkra km fyrir vestan Berlín (en er í núverandi borgarhluta Charlottenburg). Kastalinn var í byggingu 1696-1699 og vígður 11. júní það ár. Hann fékk heitið Lietzenburgkastali (Schloss Lietzenburg) eftir þorpinu. Sophie Charlotte dvaldi þó ekki lengi í honum, því hún lést 1705, þá aðeins 37 ára gömul. Kastalinn var þá í stækkun. Við dauða Sophie Charlotte var heiti kastalans breytt í Charlottenburg, henni til heiðurs.

Aðsetur konunga og keisara[breyta | breyta frumkóða]

1740 varð Friðrik II konungur Prússlands. Hann tók mikið dálæti á Charlottenburg-kastala og gerði hann að aðsetri sínu. Áhugi hans dvínaði samt mjög er Sanssouci-kastalinn í Potsdam var vígður. Þá flutti hann þangað. Eftir það var kastalinn lítil notaður af kóngafólkinu. Þó flutti Friðrik III í kastalann þegar hann varð keisari. Hann lifði þó eftir þetta aðeins í 99 daga. Hann var eini keisarinn sem bjó í kastalanum.

Kastalinn í dag[breyta | breyta frumkóða]

Í lok heimstyrjaldarinnar fyrri var hluti kastalans notaður sem hersjúkrahús. En í heimstyrjöldinni síðari skemmdist hann talsvert í loftárásum. Fljótlega var þó hafist handa við að gera kastalann upp. Árið 1960 var hann gerður að safni. Þar er til sýnis heimili Friðriks II, krúnudjásn Friðriks I og eiginkonu hans Sophie Charlotte, postulínssafn og málverkasafn. Auk þess stendur til að setja Hohenzollernsafið í kastalann. 2004-2006 bjó forseti Þýskalands í kastalanum meðan aðsetur hans, Bellevue-kastalinn, var gerður upp.

Bernsteinsalurinn[breyta | breyta frumkóða]

Eftirmynd af hinum ægifagra Bernsteinsal

Hinn undurfagri Bernsteinsalur var upphaflega smíðaður fyrir Charlottenburg-kastala. Hér er um raf að ræða, það er steingerða trjákvoðu sem Þjóðverjar kalla Bernstein. En sökum þess að Sophie Charlotte lést áður en vinnunni lauk, var Bernsteinsalurinn þess í stað settur upp í Miðborgarkastalanum (Berliner Stadtschloss). Fegurðin var slík að salurinn var kallaður 8. heimsundrið. Friðrik Vilhjálmur I gaf Pétri mikla salinn 1716, sem flutti hann til Rússlands.

Kastalagarðurinn[breyta | breyta frumkóða]

Grafhýsi Sophie Charlotte í kastalagarðinum

Kastalagarðurinn var lagður 1697 samfara byggingu kastalans. Hann er gríðarlega stór og voru reistar í honum nokkur hús, svo sem veiðihús, teehús og fleira. Norðurendi garðsins afmarkaðist af ánni Spree en þaðan var hægt að sigla til Berlínar. Friðrik II konungur lét breyta garðinum í fagran garð í rókókóstíl. Í garðinum er einnig grafhýsi fyrir Luisu drottningu, eiginkonu Friðriks Vilhjálms. Kastalagarðurinn er almenningsgarður í dag.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]