Bollakaka

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Súkkulaði-bollakökur.

Bollakökur eru litlar, sætar kökur, nú oftast bakaðar í þar til gerðum formum úr pappír, sílikoni eða málmi, yfirleitt ríkulega skreyttar með kremi, kökuskrauti og öðru. Þær eru áþekkar múffum og mörkin eru ekki ljós en múffur eru þó yfirleitt ekki skreyttar og oft ekki eins sætar og bollakökur; þær innihalda líka gjarnan ávexti, hnetur og fleira en bollakökur yfirleitt ekki.

Uppruni[breyta | breyta frumkóða]

Kökurnar eru upprunnar í Bandaríkjunum og má fyrst finna þeirra getið í matreiðslubók sem Amelia Simmons gaf út 1796 en þar gefur hún uppskrift að „léttum kökum bökuðum í litlum bollum“.[1] Heitið cupcake finnst þó ekki notað í á prenti fyrr en 1828. Sérstök form fyrir litlar kökur voru sjaldséð á þessum tíma og voru þær því oftast bakaðar í litlum leirbollum eða formum og fengu nafn af þeim, sem festist svo við þær; í Bandaríkjunum táknar heitið cupcake í víðustu merkingu „lítil formkaka á stærð við tebolla“. Enskar fairy cakes eða álfakökur eru yfirleitt minni og sjaldan mikið skreyttar.

Dæmi um bollakökur þar sem skreytingin ber kökurnar ofurliði.

Önnur ástæða fyrir nafninu var sú að hráefnið í kökurnar var mælt í bollum, eins og nú er almennt gert í Bandaríkjunum en fyrr á tímum var það yfirleitt vigtað. Það var hins vegar fljótlegra að mæla í bollum en vigta og mun fljótlegra að baka kökurnar í litlum bollum eða ílátum en í stórum formum. Bakstur á stórum kökum gat tekið mjög langan tíma þegar bakað var við opinn eld og það þufti að fylgjast vel með þeim svo þær brynnu ekki. Þessar bollakökur voru yfirleitt mjög einfaldar og innihéldu ekki ávexti eða krydd.[2]

Þegar ofnar urðu algengari og sérstök form til að baka bollakökur og múffur urðu almenningseign var að mestu hætt að baka kökurnar í bollum en þær héldu þó nafninu og hafa alltaf verið nokkuð vinsælar í Bandaríkjunum.

Bollakökur í nútímanum[breyta | breyta frumkóða]

Laust fyrir aldamótin 2000 kom upp bollaköku-tískubylgja í Bandaríkjunum, sem oft hefur verið tengd við sjónvarpsþáttinn Beðmál í borginni, og í kjölfarið jukust vinsældir þeirra víða um heim. Nú á tímum eru bollakökur oft mjög mikið skreyttar og skreytingin verður oft aðalatriðið, fremur en kakan sjálf.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. American Cookery, bls. 48.
  2. The Oxford Encyclopedia of Food and Drink in America, 1. bindi, bls. 159-160.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Andrew F. Smith (ritstj.): The Oxford Encyclopedia of Food and Drink in America. Oxford University Press, 2004.
  • Amelia Simmons: American Cookery. Albany, New York, 1796.
  • „Cupcake passion more than a trend. CNN, 15. janúar 2010. Skoðað 27. júlí 2011“.