Bleiki pardusinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þessi grein fjallar um kvikmyndaröðina. Bleiki pardusinn (kvikmynd frá 1963) fjallar um fyrstu myndina í röðinni. Bleiki pardusinn (persóna) fjallar um teiknimyndapersónuna. Bleiki pardusinn (aðgreining) inniheldur yfirlit yfir aðrar merkingar orðsins.

Bleiki pardusinn er röð gamanmynda um franska rannsóknarlögreglumanninn Jacques Clouseau. Fyrsta myndin í röðinni var Bleiki pardusinn árið 1963. Peter Sellers lék þar aðalhlutverkið sem síðan hefur fyrst og fremst tengst honum þótt aðrir leikarar hafi spreytt sig á því. Flestar myndirnar voru í leikstjórn Blake Edwards og með tónlist eftir Henry Mancini.

Nafn myndanna er dregið af gimsteininum sem söguþráður fyrstu myndarinnar snýst um.

Bleikur pardus kemur fyrir ásamt Clouseau í teiknimynd í titilatriði hverrar myndar við undirleik tónlistar Mancinis, nema í Skot í myrkri og Clouseau lögregluforingi. Persónan var teiknuð af Hawley Pratt fyrir DePatie-Freleng Enterprises. Þessi persóna fékk brátt sína eigin teiknimyndaþáttaröð fyrir kvikmyndahús. Bandaríski teiknimyndasagnfræðingurinn Jerry Beck telur bleika pardusinn vera síðustu mikilvægu teiknimyndaseríuna fyrir kvikmyndahús, en á seinni hluta 7. áratugarins fluttust teiknaðar stuttmyndir úr kvikmyndahúsum í sjónvarpið.

Kvikmyndir[breyta | breyta frumkóða]

Bleika pardus-myndir
Kvikmynd Ár Athugasemdir
Bleiki pardusinn 1963 Þessi mynd átti að vera upphafið að nýrri myndaröð með David Niven í aðalhlutverki, en Peter Sellers varð svo vinsæll í sínu hlutverki að næstu myndir fylgdu Clouseau eftir fremur en sir Charles Lytton.
Skot í myrkri 1964 Þessi mynd kom út aðeins þremur mánuðum eftir þá fyrstu. Clouseau tekst á við morðrannsókn. Í myndinni koma Dreyfus lögregluforingi (Herbert Lom) og þjónninn Cato (Burt Kwouk) fram í fyrsta sinn.
Clouseau lögregluforingi 1968 Hér leikur Alan Arkin Clouseau og aðrar lykilpersónur koma ekki fram í myndinni. Blake Edwards kom ekki nálægt gerð þessarar myndar sem er ekki heldur með tónlist eftir Mancini.
Bleiki pardusinn birtist á ný 1975 Hér snýr Peter Sellers aftur í hlutverki Clouseaus (ásamt Edwards, Mancini, Dreyfus og Cato), en Christopher Plummer leikur sir Charles Lytton.
Bleiki Pardusinn leggur til atlögu 1976 Í þessari mynd kemur Dreyfus höndum yfir gjöreyðingarvopn sem hann notar til að fá leiðtoga heimsins til að drepa Clouseau.
Hefnd Bleika pardussins 1978 Í þessari mynd tekst Clouseau á við frönsku mafíuna. Þetta var síðasta myndin sem Peter Sellers lék í en hann lést 1980.
Í fótspor Bleika pardussins 1982 Í þessari mynd var atriðum sem höfðu verið klippt úr eldri myndum skeytt saman við upptökur þar sem blaðakona (Joanna Lumley) leitar að Clouseau sem talinn er af. Ekkja Sellers, Lynne Frederick, kærði Edwards fyrir að sverta minningu manns síns með þessari mynd. Hún vann málið. David Niven birtist aftur í hlutverki Lyttons í þessari mynd.
Bölvun Bleika pardussins 1983 Bandarískur leynilögreglumaður, Clifton Sleigh, reynir að hafa upp á Clouseau og demantinum. Roger Moore kemur fram sem Clouseau. Myndinni var ætlað að vera upphaf að nýrri myndaröð með Sleigh, en viðtökur voru langt undir væntingum.
Sonur Bleika pardussins 1993 Í þessari mynd reynir Roberto Benigni að endurvekja myndaröðina með persónunni Jacques Gambrelli, syni Clouseaus og Mariu Gambrelli (sem var grunuð um morðið í Skot í myrkri). Aftur birtust ýmsir meðleikarar Sellers úr fyrri myndunum. Þetta reyndist vera síðasta mynd Edwards um Clouseau.
Bleiki pardusinn 2006 Í þessari mynd tekst Steve Martin á við hlutverk Clouseaus og Kevin Kline leikur Dreyfus. Með þessari mynd var reynt að hrinda af stað nýrri myndaröð án þess að gera tilraun til að tengja hana við fyrri röðina eða endurgera hana.
Bleiki pardusinn 2 2009 Framhald af myndinni frá 2006. John Cleese tekur við af Kline í hlutverki Dreyfuss.