Bessi Bjarnason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bessi Bjarnason (f. 5. september 1930 - d. 12. september 2005) var íslenskur leikari. Fer­ill Bessa spannaði nær hálfa öld og var hann í hópi ást­sæl­ustu leik­ara þjóðar­inn­ar.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Bessi Bjarna­son fædd­ist í Reykja­vík 5. sept­em­ber 1930, son­ur Guðrún­ar Snorra­dótt­ur, hús­móður, og Bjarna Sig­munds­son­ar, bif­reiðastjóra.

Að loknu versl­un­ar­prófi frá Verzl­un­ar­skóla Íslands 1949 var Bessi ráðinn á nem­enda­samn­ing hjá Þjóðleik­hús­inu í eitt ár. Hann sótti Leik­list­ar­skóla Lárus­ar Páls­son­ar sam­fara námi síðasta vet­ur­inn í Verzl­un­ar­skól­an­um. Síðan tók Bessi inn­töku­próf í Leik­list­ar­skóla Þjóðleik­húss­ins strax og hann tók til starfa og út­skrifaðist vorið 1952 en jafn­framt nám­inu lék hann í mörg­um leik­rit­um Þjóðleik­húss­ins. Hann var fa­stráðinn leik­ari við Þjóðleik­húsið 1952 til 1990 og hélt áfram að leika í Þjóðleik­hús­inu, Borg­ar­leik­hús­inu og Loft­kastal­an­um eftir það.

Hlut­verk hans í Þjóðleik­hús­inu voru hátt í 200. Hann lék meðal ann­ars í fjölda barna­leik­rita, þar á meðal í Litla Kláusi og Stóra Kláusi, Kar­demommu­bæn­um, Dýr­un­um í Hálsa­skógi og Ferðinni til tungls­ins.

Á meðal gam­an­leik­rita sem hann lék í má nefna Skugga-Svein, Góða dát­ann Svejk, Hrólf, Hun­angsilm, Ný­árs­nótt­ina, Hvað varstu að gera í nótt, Á sama tíma að ári, Sveyk og Aura­sál­ina.

Al­var­legu hlut­verk­in voru ófá en hann lék meðal ann­ars í Horfðu reiður um öxl, Hús­verðinum, Nátt­ból­inu og Bíla­verk­stæði Badda.

Jafn­framt lék hann gjarn­an aðal­hlut­verk eða áber­andi hlut­verk í söng­leikj­um eins og My Fair Lady, Stöðvið heim­inn, Lukk­uridd­ar­inn, Ég vil! Ég vil!, Kaba­rett og Gæj­ar og píur.

Hann tók einnig þátt í mörg­um óp­er­ett­um, þar á meðal Sum­ar í Týról og Kysstu mig Kata. Auk þess í óper­um eins og Töfraf­laut­unni og Mika­do.

Auk hlut­verka í leik­húsi lék Bessi í fjölda út­varps­leik­rita og kom fram í mörg­um skemmtiþátt­um. Árum sam­an tróð hann upp með Gunn­ari Eyj­ólfs­syni á skemmt­un­um um allt land og síðar tóku þeir ásamt fleir­um þátt í Sum­argleðinni um ára­bil. Bessi tók þátt í fjölda sjón­varps­mynda og lék í sjón­varps­aug­lýs­ing­um. Þá lék hann í nokkr­um kvik­mynd­um eins og til dæm­is Skila­boðum til Söndru, Ryði, Ingaló og Stellu í or­lofi.

Bessi Bjarna­son var gjald­keri Fé­lags ís­lenskra leik­ara 1958 til 1985 og sinnti ýms­um öðrum trúnaðar­störf­um fyr­ir fé­lagið. Hann var sæmd­ur gull­merki FÍL 1981.

Um ára­bil sá Bessi um bók­hald hjá Landsmiðjunni og fékkst við margs kon­ar sölu­mennsku. Hann kom að plötu­út­gáfu og stóð meðal ann­ars fyr­ir út­gáfu á barna­leik­rit­um og lesn­um barna­sög­um.

Fyrri kona Bessa var Erla Sigþórs­dótt­ir. Þau eignuðust þrjú börn og eru barna­börn­in fimm. Seinni kona Bessa er Mar­grét Guðmunds­dótt­ir leik­kona.[1]

Kvikmynda- og sjónvarpsferill[breyta | breyta frumkóða]

Ár Kvikmynd/Þáttur Hlutverk Athugasemdir og verðlaun
1951 Niðursetningurinn
1962 79 af stöðinni
1966 Áramótaskaupið 1966
1967 Áramótaskaupið 1967
1968 Áramótaskaupið 1968
1970 Áramótaskaupið 1970
1971 Áramótaskaupið 1971
1974 Áramótaskaupið 1974
1975 Áramótaskaupið 1975
1979 Áramótaskaupið 1979
1981 Áramótaskaupið 1980
1983 Skilaboð til Söndru Jónas
1985 Fastir liðir: eins og venjulega Hlölli afi
1986 Stella í orlofi Bóndi
1987 Áramótaskaupið 1987
1990 Ryð
Áramótaskaupið 1990
1992 Ævintýri á Norðurslóðum Björn
Ingaló Gunnlaugur
Áramótaskaupið 1992
1994 Áramótaskaupið 1994
1998 Áramótaskaupið 1998
1999 Áramótaskaupið 1999
2001 No Such Thing Captain
2001 Regína Jónas

Plötur[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Bessi Bjarnason látinn Mbl.is, Sótt af mbl.is 16-03-2015

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]