Bergþóra Skarphéðinsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bergþóra Skarphéðinsdóttir, (10. öld - 1011) var kona Njáls Þorgeirssonar á Bergþórshvoli í Landeyjum. Njála segir um hana: „Hún var ... kvenskörungur mikill og drengur góður og nokkuð skaphörð.“ Svo miklir vinir sem þeir voru, Njáll og Gunnar á Hlíðarenda, þá ríkti fullkomin óvinátta á milli þeirra Bergþóru og Hallgerðar, konu Gunnars. Um nokkurra ára skeið létu þær drepa þræla og húskarla hvor fyrir annarri og gerðist það jafnan snemma sumars er menn þeirra voru á Alþingi, en þá áttu þær frítt spil heima fyrir. Bergþóra sendi Svart til skógarhöggs og kolagerðar í Rauðuskriðum, sem þeir áttu í félagi, Njáll og Gunnar. Fyrir það lét Hallgerður Kol, verkstjóra sinn, drepa Surt. Næsta vor lét Bergþóra Atla, húskarl sinn, drepa Kol. Hallgerður svarði með því að fá frænda sinn, Brynjólf rósta Svansson, til þess að vega Atla. Þá svaraði Bergþóra með því að fá Þórð leysingjason, sem var fóstri allra sona hennar, til þess að drepa Brynjólf rósta. Að ári fékk Hallgerður Sigmund Lambason, frænda Gunnars, og Skjöld hinn sænska til þess að vega Þórð og að lokum drápu Njálssynir þá Sigmund og Skjöld. Þar með voru bæði Njálssynir og Gunnar orðnir til eftirmála. Þegar mikil mannvíg höfðu orðið um langa hríð og svo var komið að Njálssynir og Kári Sölmundarson höfðu drepið Höskuld Hvítanessgoða, fóstbróður sinn, fór Flosi á Svínafelli til Bergþórshvols og brenndi þá alla inni, nema Kára, sem einn slapp úr brennunni. Hann bauð Bergþóru útgöngu, en hún neitaði og sagðist ung hafa verið gefin Njáli og skyldi eitt yfir bæði ganga.