Bergþór Oddsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bergþór Oddsson (f. 1639, d. eftir 1703 en fyrir 1712)[1] eða Bergþór skáld í Flatey var íslenskt skáld. Eftir hann eru varðveittir þrír sálmar, eitt kvæði í Skautaljóðum og tveir rímnaflokkar; Remundarrímur og Úlfsrímur Uggasonar.[2][3] Bergþór er þekktastur fyrir rímur sínar, einkum Úlfsrímur sem lengi nutu vinsælda.

Ævi og ættir[breyta | breyta frumkóða]

Ætt Bergþórs er ókunn og lítið er vitað um ævi hans. Þegar manntalið 1703 var gert bjó hann í Neðribæ í Flatey á Skjálfanda ásamt konu sinni Guðrúnu Jónsdóttur sem þá var 61 árs og þremur börnum sínum, Þorsteini 31 árs, Nikulási 21 árs og Ragnhildi 20 ára. Tveir eldri synir Bergþórs eru þekktir, Þórarinn og Oddur. Þórarinn mun hafa verið elsti sonur föður síns og frá honum eru komnar ættir.[1]

Rímur[breyta | breyta frumkóða]

Rímur Bergþórs urðu vinsælar.[3] Í niðurlagi beggja rímnanna bindur höfundur nafn sitt.[4][5]

Rímur af Remundi Rígarðssyni eru ortar eftir Rémundar sögu keisarasonar, íslenskri riddarasögu frá 14. öld.[6] Þær orti Bergþór fyrir Bjarna Hallsson prest. Rímurnar eru 20 að tölu og varðveittar að fullu eða að hluta til í sex handritum.[4]

Rímur af Úlfi Uggasyni eru sex. Vinsældir þeirra sjást af því að þær eru varðveittar í átján handritum. Yrkisefnið er Úlfs saga Uggasonar, ung saga af ætt fornaldarsagna og riddarasagna.[7] Lengi gengu á vörum manna vísur úr Úlfsrímum, til dæmis sú sem hér fer á eftir.

Hvað mun þá til varnar verða vorum sóma,
að frelsa unga selju seima,
fyrst sonur minn er ekki heima?[8][9]

Úlfsrímur hafa opinskáar og gamansamar lýsingar á kynfærum risa[10] enda voru sumar vísurnar vart taldar prenthæfar.[11] Þorsteinn Pétursson sagði í höfundatali sínu að rímurnar væru "með auðvirðilegu orðatiltæki, en vel vaktaðar uppá bragarháttinn, svo þar af sést hann var gott skáld í náttúrunni."[3] Páll Eggert Ólason kallaði þær "góðar rímur".[8]

Annar kveðskapur[breyta | breyta frumkóða]

Auk rímnanna er Bergþóri eignað eitt kvæði í Skautaljóðadeilunni ("Litið hefi eg ljóðin tvenn")[12] og þrír sálmar; Bænarsálmur, ("Eilífur friðarfaðir"), Sálmur um góða burtför ("Þú, mín sál, þér er mál") og Kvöldvísa ("Hrópandi eg af hjarta bið"). Páll Eggert Ólason sagði að sálmarnir væru "sæmilega ... kveðnir".[8]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Indriði Indriðason:17
  2. Páll Eggert Ólason 1948:152
  3. 3,0 3,1 3,2 Finnur Sigmundsson 1966 II:22
  4. 4,0 4,1 Finnur Sigmundsson 1966 I:400
  5. Finnur Sigmundsson 1966 I:482
  6. Simek 1987:289
  7. Simek 1987:375
  8. 8,0 8,1 8,2 Páll Eggert Ólason 1926:773
  9. Páll Eggert Ólason 1926:445
  10. Wawn:8
  11. Páll Eggert Ólason 1944:383
  12. Páll Eggert Ólason 1926:772

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Finnur Sigmundsson. 1966. Rímnatal I-II. Reykjavík, Rímnafélagið.
  • Indriði Indriðason. 1969. Ættir Þingeyinga I. Reykjavík, Helgafell.
  • Páll Eggert Ólason. 1926. Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi IV. Reykjavík, Bókaverzlun Ársæls Árnasonar.
  • Páll Eggert Ólason. 1944. Saga Íslendinga IV. Reykjavík, Menntamálaráð og Þjóðvinafélag.
  • Páll Eggert Ólason. 1948. Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 I. Reykjavík, Hið íslenska bókmenntafélag.
  • Simek, Rudolf og Hermann Pálsson. 1987. Lexikon der altnordischen Literatur. Stuttgart, Alfred Kröner Verlag.
  • Wawn, Andrew. [2006]. Whatever happened to Úlfs saga Uggasonar? http://www.dur.ac.uk/medieval.www/sagaconf/wawn.htm Geymt 26 september 2008 í Wayback Machine

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]