Atli (ritverk)
Atli sem heitir fullu nafni Atli, eða ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn: helst um jarðar- og kvikfjárrækt aðferð og ágóða med andsvari gamals bónda er leiðarvísir fyrir bændur um rétta breytni í búskaparmálum eftir séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal. Ritið kom fyrst út árið 1780 og var prentað í Hrappseyjarprentsmiðju af Guðmundi Ólafssyni. Síðan þá hefur það komið út fjórum sinnum, síðast í ljósritaðri útgáfu frumútgáfu árið 1948 á vegum Búnaðarfélags Íslands.
Fljótlega eftir útgáfu sína var ritinu dreift endurgjaldslaust til íslenskra bændra fyrir tilstilli danakonungs. Það var gert til að auka menntun alþýðunnar og því konungur vildi auka afköst íslenskra bænda. Þetta vakti mikla lukku og því verkið þótti ekki bara fræðandi heldur hin mesta skemmtun. Því var algengt allt fram á 19. öld að lesið væri upp úr því á kvöldvökum til afþreyingar. Nánast allt ritið er á samtalsformi eins og oft tíðkaðist um kennslubækur fyrr á tímum. Þar ræða saman hinn fávísi Atli og einstaklingur sem einungis er titlaður bóndi. Atli er að stíga sín fyrstu skref í búskap og fræðir reynslumikill bóndinn hann um hvernig reka skuli gott bú.
Hliðstætt Atla er ritið Arnbjörg eftir sama höfund en það rit kennir konum hvernig styðja skuli manninnn sinn við bústörfin, hvernig eigi að ala upp börnin og ýmislegt fleira sem lýtur að innanbæjarbúsýslu.
Úr Atla
[breyta | breyta frumkóða]Hér er gripið niður í 13. kafla Atla þar sem Atli er að fá bakþanka eftir að hafa verið kennt að reka bú með sæmd.
- Atli: Mér finnst þú unnir mér engrar þeirrar hægðar, sem aðrir bændur hafa, þú eggjar mig á svo margt og mikið erfiði, sem fáir eða engvir þreyta sig á: mundi mér ekki betra að fara hægara að öllum högum minum og munum eins og aðrir sveitungar mínir, og ef mig þá brestur verður mér betri til, að einhver gefi mér málsverð, þegar ég ræðst ekki í meira en aðrir menn: en fyrir þessar nýjungar amast allir við mér.
- Bóndi: Það kom mér ekki í hug, að þú mundir ætla þér að lifa á annarra sveita: þú hefur sagt mér, að þú hefðir verið miðaður við tvo um tvítugt, og á þeim aldri fer mönnum fram enn ekki aftur við erfiðið. Viljir þú ekki erfiða, þá máttu ekki eta og þá verður þú ekki lengi jarða byrði; gjörðu annaðhvort erfiðaðu og éttu, eða hvorugt. [...] Þú átt að vita það að daglegt erfiði, sem þú gjörir með ánægju, í góðri von Guðs blessunnar og skemmtilegri samvinnu konu þinni, er heilnæmt og gagnlegt líkama þínum til heilbrigði og viðhalds, og sálum ykkar er það gott að tempra þar með æskunnar gjálífi. [...]
- Atli: Eg verð fyrir athlátri þegar ég er svo oft að sýsla mykju, moldbleytu og aðra óhreina hluti, sem aðrir mínir líkir skipta sér ekkert af, og vilja ei snerta með fingri sínum.
- Bóndi: Þegar þeir hafa hlegið út um sinn, þá hætta þeir, því enginn maður getur án afláts hlegið; og þegar Guð blessar erfiði þitt, enn hinir ónytjungarnir svelta heilu hungri, þá þarftu ekki að spyrja, að hláturinn fari af þeim. Þú kannt segja þeim að aldrei muni þeir verða verða haldnir jafn göfugir, miklu síður göfugri en aðrir menn. [...]