Alkajos

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Alkajos frá Mýtilene (fæddur um 620 f.Kr.) var grískt lýrískt skáld og eldri samtímamaður skáldkonunnar Saffóar. Sagt var að þau hefðu átt í ástarsambandi en þau skiptust á kvæðum. Hann var yfirstéttarmaður og bjó í borginni Mýtilene sem var meginborgin á eynni Lesbos. Hann tók þátt í stjórnmálum og stjórnmálaátökum borgarinnar. Alkajos studdi málstað yfirstéttarinnar gegn „harðstjórum“ sem tóku völdin í Mýtilene í nafni alþýðunnar. Hann varð af þeim sökum að eyða töluverðum tíma í útlegð frá borginni. Hann var sagður hafa sæst við Pittakos, leiðtoga flokks alþýðunnar, og hafa að lokum snúið aftur til Lesbos.[1] Dánarár hans er óþekkt.

Þegar ljóðum hans var ritstýrt og þau gefin út í Alexandríu á helleníska tímanum fylltu þau tíu bókrollur.[2] Kveðskapur Alkajosar hefur einungis varðveist í tilvitnunum síðari tíma höfunda. Af þessum sökum er erfitt að leggja mat á kveðskap hans. Efni kvæðanna, sem voru samin á eólískri mállýsku, var af ýmsu tagi: sálmar til heiðurs guðunum; athugasemdir um hernað eða stjórnmál, stundum nokkuð persónuleg; og að lokum ástarsöngvar og drykkjuvísur, þ.e. kveðskapur af því tagi sem hefði verið lesinn upp á samdrykkjum. Fræðimenn í Alexandríu voru á einu máli um að Alkajos hefði verið næstbesta skáldið af hinum hefðbundnu „kanónísku“ níu lýrísku ljóðskáldum. Brotin sem eru varðveitt eru allnokkur, en auk þess hermdi rómverska skáldið Quintus Hóratíus Flaccus eftir Alkajosi á latínu, en Alkajos var ein af fyrirmyndum Hóratíusar.[3] Þetta gefur okkur einhverja hugmynd um helstu einkenni kveðskapar Alkajosar.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Alcaeus“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 24. september 2006.
  • Campbell, David A, Greek Lyric Poetry (London: Bristol Classical Press, 1982).
  • Lesky, Albin, A History of Greek Literature. Cornelis de Heer & James Willis (þýð.) (Indianapolis: Hackett, 1996).

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

  1. Lesky (1996), 134
  2. Lesky (1996), 135-6
  3. Campbell (1982), 287

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]


Lýrísku skáldin níu | Forngrískar bókmenntir
Alkman | Saffó | Alkajos | Anakreon | Stesikkóros | Ibykos | Símonídes frá Keos | Pindaros | Bakkylídes