Ab-mjólk

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ab-mjólk er mjólkurvara, framleidd af Mjólkursamsölunni, en hún dregur nafn sitt af tveimur gerlum sem í hana eru settir, þ.e. Lactobacillus acidophilus (a) og Bifidobacterium bifidum (b). Í hverjum ml af Ab-mjólk eru um það bil 500 milljónir af hvorri tegund. Einnig inniheldur hún gerlana Streptococcus lactis og S. thermophilus.

Eins og aðrir góðir mjólkursýrugerlar í skyri, jógúrt og súrmjólk, auðvelda þeir meltingu á mjólkurpróteinum og stuðla að hámarksnýtingu líkamans á kalki úr mjólkinni. Sérkenni Ab-mjólkurinnar er hins vegar samspil þessara a og b gerla sem, ólíkt öðrum mjólkursýrugerlum, lifa af ferðalagið í gegnum magann og halda starfsemi sinni áfram í þörmum, svo að óæskilegir gerlar eiga þar erfitt uppdráttar. Rannsóknir benda til að starfsemi ab gerla í meltingarveginum geti aukið mótstöðuafl líkamans og geti einnig komið í veg fyrir aukningu kólesteróls í blóði. Fyrir okkur íslendinga getur Ab-mjólk gert mikið gagn á ferðalögum erlendis til að koma í veg fyrir magakveisur.