AFL Starfsgreinafélag Austurlands

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir yfirlit yfir aðrar merkingar „Afl“

AFL Starfsgreinafélag Austurlands var eitt stofnfélaga AFLs Starfsgreinafélags.

Yfirlit[breyta | breyta frumkóða]

AFL – Starfsgreinafélag Austurlands var deildaskipt verkalýðsfélag sem stofnað var 14. janúar 2001 þegar sex verkalýðsfélög á svæðinu frá Bakkafirði til Fáskrúðsfjarðar voru sameinuð. Utan við þessa sameiningu var eitt félag á áður nefndu svæði og er enn, en það er Verkalýðsfélag Reyðarfjarðar sem stofnað var í Barnaskóla Reyðarfjarðar 1. apríl 1933 (Verkalýðsfélag Reyðarfjarðar var upphaflega stofnað formlega 19. janúar 2008 en starfssemi félagsins lá niðri um árabil og var það endurreist 1. apríl 1933 og gekk það þá í Alþýðusamband Íslands). Félögin sem sameinuðust voru:

  • Verkalýðs- og sjómannafélag Fáskrúðsfjarðar
  • Verkamannafélagið Árvakur á Eskifirði
  • Verkalýðsfélag Norðfirðinga
  • Verkalýðsfélag Fljótsdalshéraðs og Borgarfjarðar
  • Verkamannafélagið Fram á Seyðisfirði
  • Verkalýðs- og sjómannafélag Vopnafjarðar og Skeggjastaðahrepps

Með sameiningunni varð til stærsta stéttarfélag á Austurlandi með um 1800 félagsmenn.

Þann 6. júní árið 2002 stækkaði félagið enn þegar AFL sameinaðist tveimur iðnaðarmannafélögum, Iðnsveinafélagi Fljótsdalshéraðs og Málm- og skipasmiðafélagi Norðfjarðar. Í kjölfarið var síðan stofnuð sérstök iðnaðarmannadeild innan félagsins með á annað hundrað félagsmenn en hún kom til viðbótar við sjómannadeild sem áður var starfrækt. Deildirnar tvær sinntu sérhagsmunamálum umræddra hópa en flestir félagsmenn voru í almennri deild. Félagsmenn í AFLi 2005 voru um 2000 auk þeirra starfsmanna sem starfa við virkjanaframkvæmdir við Kárahnjúka sem falla undir kjarasamninga AFLs.

AFL Starfsgreinafélag Austurlands varð ekki nema 6 ára gamalt því 28. apríl 2007 sameinaðist AFL Starfsgreinafélag Austurlands félagið Vökli Stéttarfélagi og Verkalýðsfélagi Reyðarfjarðar og varð AFL Starfsgreinafélag.

Saga félagsins einkenndist þó af miklum átökum meðal aannars við Kárahnjúka og verulegum breytingum í starfssemi félagsins en fjöldi félagsmanna jókst ár frá ári þar til að félagið var orðið stærsta félag SGS (og ASÍ) utan höfuðborgarsvæðis og þriðja stærsta félag landsins.

Jón Ingi Kristjánsson var formaður lengst af eða fram á vor 2006 en þá tók Sigurður Hólm Freysson við formennsku. Aðalbjörn Sigurðsson var framkvæmdastjóri félagsins frá 20022005 en þá var Sverrir Albertsson ráðinn í starfið.

Félagið hefur rekið þjónustuskrifstofur á öllum þéttbýlisstöðum félagssvæðisins og verið farsælt með starfsfólk. AFL rak umfangsmikla endurmenntun fyrir starfsfólk sitt og trúnaðarmenn og hefur það skilað sér í markvissara starfi félagsins.

Stofnfélögin[breyta | breyta frumkóða]

Verkamannafélagið Árvakur á Eskifirði[breyta | breyta frumkóða]

Félagið var stofnað haustið 1914. Reyndar hafði Jón Kr. Jónsson stofnað verkalýðsfélag á Eskifirði skömmu eftir aldamótin. Mætti það félag mikilli andstöðu meðal kaupmanna og varð ekki langlíft.

Fyrsti formaður Verkamannafélagsins Árvakurs var Valgeir Guðbjartsson. Með honum í stjórn voru Jón Kr. Austfjörð, Þórarinn Jóhannesson, Bjarni Kemp og Helgi Þorláksson. Meðal annarra formanna má nefna þekktan einstakling, Richard Beck prófessor, sem var þó mjög stutt formaður eða í tæpa tvo mánuði. Arnfinnur Jónsson skólastjóri var í formannssæti í sex ár en báðir þessir menn stóðu að stofnun félagsins. Lengst hafa þó setið í formannsstóli Alfreð Guðnason, sem var formaður Árvakurs í 18 ár, og Hrafnkell A. Jónsson, sem sat samanlagt á formannsstóli í 16 ár. Alfreð var formaður frá 1949 til 1959 og aftur 1962 til 1970. Hrafnkell var formaður frá 1977 til 1979, 1981 til 1982 og 1984 til 1997.

Félagið gekk í Alþýðusamband Íslands 11. apríl 1917. Árvakur hefur látið ýmis framfaramál til sín taka og stofnaði Kaupfélag verkamanna árið 1917 en það starfaði til vorsins 1926. Til gamans má geta þess að Kaupfélag verkamanna hafði frá 1917 til 1922 aðsetur í eigin húsnæði miðsvæðis á Eskifirði sem gekk undir nafninu Kauphöllin.

Félagið átti líka þátt í stofnun togarafélagsins Andra. Árið 1933 hafði félagið einnig forgöngu um stofnun Samvinnufélagsins Kakala. Gerði það út þrjá 17 tonna báta og einn 48 tonna. Þá bauð Verkamannafélagið Árvakur nokkrum sinnum fram lista við hreppsnefndarkosningar og tvisvar lýsti félagið yfir stuðningi við pólitíska flokka í alþingiskosningum. Síðasti formaður félagsins fyrir sameininguna við AFL var Sigurður Hólm Freysson.

Verkakvennafélagið Framtíðin á Eskifirði[breyta | breyta frumkóða]

Þetta félag var stofnað þann 14. mars árið 1918 að Brautarholti á Eskifirði. Félagssvæðið var Eskifjarðarhreppur og gekk félagið í ASÍ þann 17. nóvember 1942. Það voru nokkrar konur á Eskifirði sem beittu sér fyrir stofnun Verkakvennafélagsins Framtíðarinnar. Þær höfðu séð þörf fyrir samtök verkakvenna til að standa vörð um hagsmuni þeirra og launakjör.

Fyrsti formaður Framtíðarinnar var Nikólína Jónsdóttir. Með henni voru í stjórninni þær Borghildur Einarsdóttir varaformaður, Ragnheiður Björnsdóttir ritari og Ingibjörg Stefánsdóttir gjaldkeri. Ragnhildur Einarsdóttir Snædal var lengst formaður félagsins eða á árunum 1926 til 1933 og síðan frá 1934 til 1961 er hún lést.

Verkalýðsfélögin á Eskifirði gengu til sameiginlegra samninga í mars 1926 við atvinnurekendur sem voru reyndar kaupmennirnir á staðnum. Lauk þeim samningum eftir harðvítuga baráttu með sigri félaganna. Þar skuldbundu atvinnurekendur sig til að láta heimilisfast fólk á Eskifirði ganga fyrir um vinnu. þá var það athyglisverða nýmæli sett inn í samningana að þegar konur ynnu þá vinnu sem almennt teldist til karlmannsverka, skyldu þær fá karlmannskaup.

Enn þann dag í dag er verið að berjast fyrir því sem þarna var skrifað upp á í samningum en með mjög misjöfnum árangri þó. Er það þá kallað að krefjast sömu launa fyrir sömu vinnu. Samt teljast konur enn ekki njóta launa til jafns við karla þótt 78 ár séu liðin frá þessum samningum á Eskifirði.

Framtíðin sameinaðist Verkamannafélaginu Árvakri árið 1971.

Verkalýðs- og sjómannafélag Fáskrúðsfjarðar[breyta | breyta frumkóða]

Félagið var stofnað 10. desember 1935. Félagið gekk í gekk í Alþýðusamband Íslands sama ár. Það var Jón Sigurðsson, erindreki Alþýðusambandsins, sem hafði forgöngu um stofnun félagsins í samráði við heimamenn. Félagssvæðið var samkvæmt lögum félagsins Fáskrúðsfjarðarhreppur og Búðarhreppur.

Fyrsti formaður félagsins var Sveinn Kr. Guðmundsson, síðar kaupfélagsstjóri á Akranesi. Með honum í stjórninni voru Lárus Guðmundsson, Guðmundur Stefánsson, Vilhjálmur Jóhannsson og Bjarni Þórlindsson. Valdimar Bjarnason var lengi formaður félagsins. Eiríkur Stefánsson, var formaður félagsins um nær tveggja áratuga skeið. Hann var kosinn formaður 1983 og var í þeirri stöðu allt þar til félagið rann inn í AFL árið 2001.

Árin sem Eiríkur var við formennsku var mikill átakatími. Helsti vinnuveitandi í upphafi ferils hans í formannssæti var söltunarstöðin Pólarsíld, stærsta söltunarstöð landsins með um 200 starfsmenn. Voru oft hörð átök um kaup og kjör en Verkalýðs- og sjómannafélag Fáskrúðsfjarðar hafði þann metnað að semja sjálft um kjör síns fólks heima í héraði. Það var ekki gert baráttulaust. Eftir að Pólarsíld komst í þrot skömmu eftir 1990 missti mikill fjöldi fólks vinnu sína og varð mikil fólksfækkun við það í plássinu.

Eftir gjaldþrot Pólarsíldar stóð Kaupfélag Fáskrúðsfjarðar eftir sem stærsti vinnuveitandinn á staðnum. Kaupfélagið gerði út tvo og um tíma þrjá togara og rak frystihús og loðnubræðslu.

Um svipað leyti og Eiríkur tók við formennsku í verkalýðsfélaginu, tók jafnaldri hans, Gísli Jónatansson frá Vestmannaeyjum, við stöðu kaupfélagsstjóra. Á milli þessara manna urðu oft mikil átök þegar semja þurfti um kaup og kjör og voru verkalýðsmálin oft tilefni frétta í dagblöðum landsmanna. Eiríkur hélt baráttunni áfram sem formaður fyrir sitt félag allt þar til það sameinaðist AFLi árið 2001. Þá hélt Eiríkur áfram störfum fyrir AFL í tæpt ár eftir sameininguna.

Verkalýðsfélag Norðfirðinga og forverar þess[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir benda til þess að fyrsta tilraun verkafólks á Norðfirði til að bindast samstökum og standa vörð um hagsmuni sína hafi hafist árið 1905. Félagið var nefnt Vinnufólksfélag Norðfjarðar og átti erfitt uppdráttar og bendir þest til að lífdagar þess hafi ekki verið langir.

Næsta tilraun norðfirskrar alþýðu til að kom á fót stéttarfélagi var árið 1915 og var Verkamannafélagið Starfandi stofnað 11. apríl það ár. Stofnfélagar voru 48, allt karlmenn, og kusu þeir fyrstu stjórn félagsins og skipuðu hana: Jón Einarsson formaður, Guðjón Símonarson ritari og Sigurjón Magnússon féhirðir. Í varastjórn voru þessir: Þorsteinn Einarsson varaformaður, Sigurður Jónsson á Tröllanesi, vararitari og Guðjón Hjörleifsson varaféhirðir.

Heimildir um starfsemi Verkamannafélagsins Starfandi eru ekki miklar en fram kemur þó að frá stofnun þess til 6. maí 1917 hafi verið haldnir 17 fundir en lengra ná heimildir ekki. Alls munu um 90 manns hafa gengið í félagið á líftíma þess, þar af tvær konur, þær Kristín Ágústsdóttir og Kristín Stefánsdóttir en þær voru meðal þeirra sem sögðu sig þjótlega úr því. Algengt var að menn segðu sig úr félaginu til að komast hjá því að gegna trúnaðarstörfum fyrir það og má álykta að þeir sem voru í forsvari þess hafi orðið fyrir mótdrægni af hálfu atvinnurekenda.

Verkalýðsfélag Norðfjarðar[breyta | breyta frumkóða]

Félagið var stofnað 30. maí árið 1922 í Góðtemplarahúsinu á Norðfirði. Gekk félagið strax við stofnun í ASÍ. Félagssvæðið varNorðfjarðar. Stofnendur og aðalhvatamenn að stofnun félagsins voru þeir Ólafur Friðriksson, Guðjón Símonarson, Jón Rafnsson og þeiri. Fyrsti formaður félagsins var Jón Rafnsson (yngri). Með honum í stjórninni voru Guðjón Símonarson og Vigfús Sigurðsson. Strangt til tekið verður að líta á ?? sem hinn eiginlega stofndag en þá var fyrsta raunverulega stjórn félagsins kjörin. Á þennan fund komu 52 félagsmenn en alls voru stofnendur taldir 60. Í stjórn voru kjörnir: Jón Rafnsson yngri, formaður, Ingimann Ólafsson varaformaður, Steinn Jónsson ritari, Vigfús Sigurðsson gjaldkeri og Guðjón Símonarson fjármálaritari.

Í bók Jón Rafnssonar, Vor í véum, segir að nokkurs uggs hafi gætt í herbúðum stórkaupmanna við komu Ólafs Friðrikssonar til Norðfjarðar og stofnun Verkalýðsfélags Norðfjarðar í kjölfar hennar.

Eftir að Verkalýðsfélagi Norðfjarðar var vikið úr Alþýðusambandi Íslands árið 1939 var stofnað annað félag, Verkalýðsfélag Neskaupstaðar. Miklar pólitískar deilur settu svip sinn á starfsemi beggja félaganna en innan Verkalýðsfélags Norðfjarðar hafði alla tíð verið mikil pólitísk starfsemi.

Þann 3. september 1942 var haldinn stofnfundur nýs verkalýðsfélags í Neskaupstað en bæði félögin sem áður eru nefnd höfðu samþykkt að hætta störfum ef verkalýður bæjarins yrði sameinaður í einu félagi. Stofnun Verkalýðsfélags Norðfirðinga markar tímamót í sögu norðfirskrar verkalýðshreyfingar. Með stofnun félagsins var norðfirsk alþýða sameinuð í einu félagi og pólitískar deilur heyrðu sögunni til.

Formenn Verkalýðsfélags Norðfjarðar og Verkalýðsfélags Norðfirðinga frá upphafi eru þessir: Jón Rafnsson yngri, Pétur Sveinbjörnsson, Jónas Guðmundsson, Þorvaldur Sigurðsson, Jóhannes Stefánsson, Bjarni Þórðarson, Örn Scheving, Sigfinnur Karlsson, Jón Ingi Kristjánsson, Einar Guðmundsson og Guðmundur Sigurjónsson.

Baráttudagur alþýðunnar, 1. maí, var fyrst haldinn hátíðlegur á Norðfirði árið 1927. Mikil félagsstarfsemi var innan Verkalýðsfélags Norðfjarðar. Þar störfuðu meðal annars lesflokkar og lestrarfélag, nefndir um leiklist og söng og nefnd sem var ætlað að starfa að skemmtunum og alls konar gleðskap og fræðslu innan félagsins.

Árið 1932 var Pöntunarfélag Alþýðu, PAN, stofnað. Tilgangur félagsins var, eins og segir í 2. grein laga félagsins; „að annast hagkvæm vöruinnkaup til heimilisþarfa fyrir félagsmenn og sporna við skuldasöfnun.“ Víst er að vöruverð í Neskaupstað lækkaði með tilkomu félagsins og tók verkafólk almennt mikla tryggð við félagið. Um PAN var kveðið:

Ef þú staddur ert í vanda,
átt þér lítið milli handa,
dugar ekkert flónskuflan.
Þá er best að kunna að kaupa,
kaupa á réttum stað og hlaupa
í einum spretti inn í PAN.

(Vísan er eignuð Einari Sveini Frímann.) (Heimildir: Saga norðfirskrar verkalýðshreyfingar, fyrra bindi. Smári Geirsson,1993.)

Frá árinu 1978 hefur Verkalýðsfélag Norðfirðinga og síðar AFL - Starfsgreinafélag Austurlands, verið til húsa að Egilsbraut 11 í Neskaupstað. Það lýsir kannski best þeirri pólitísku hugsjón, sem um áraraðir var innan félagsins, að húsið að Egilsbraut 11 hefur, og þykir við hæfi í ljósi sögunnar, um árabil gengið undir nafninu „Kreml"

Sigfinnur Karlsson[breyta | breyta frumkóða]

Ekki er á neinn hallað þótt sagt sé að Sigfinnur Karlsson sé sá maður á Austurlandi sem til þessa hafi lagt mest af mörkum til verkalýðshreyfingarinnar, ekki bara í Verkalýðsfélagi Norðfirðinga, heldur og Alþýðusambandi Austurlands og víðar.

Sigfinnur lauk prófi frá Alþýðuskólanum á Eiðum og hóf snemma afskipti af verkalýðsmálum eða árið 1942 er hann var kosinn formaður Vélstjórafélagsins Gerpis í Neskaupstað. Frá þeim tíma og allt fram til ársins 1994 starfaði Sigfinnur óslitið að verkalýðsmálum. Hann sat í stjórn Verkalýðsfélags Norðfirðinga í 41 ár, þar af var hann formaður í 25 ár. Þá sat hann lengi í stjórn Alþýðusambands Austurlands og var forseti þess í 17 ár. Sigfinnur var í stjórn Verkamannasambands Íslands í 23 ár og átti einnig lengi sæti í framkvæmdastjórn þess. Þá var hann fyrsti formaður fiskvinnsludeildar Verkamannasambandsins. Sigfinnur sat í stjórn og framkvæmdastjórn Sjómannasambands Íslands í um 20 ár.

Sigfinnur beitti sér mjög fyrir byggingu orlofshúsa verkalýðsfélaga á Austurlandi á Einarsstöðum. Hann var einn af stofnendum Síldarvinnslunnar og Alþýðubankans og rak flutningafyrirtæki ásamt syni sínum í mörg ár.

Árið 2000 voru Sigfinnur og eiginkona hans, Valgerður Ólafsdóttir, sem lifði eiginmann sinn, gerð að fyrstu heiðursfélögum Verkalýðsfélags Norðfirðinga.

Verkalýðsfélag Fljótsdalshéraðs og Borgarfjarðar[breyta | breyta frumkóða]

Félagið varð til við samruna tveggja félaga árið 2000. Upphafið má raunar rekja til 27. október árið 1951. Þá stofnuðu 17 karlar í Egilsstaðahreppi Verkalýðs- og bílstjórafélag Egilsstaðahrepps. Í fyrstu stjórn voru kjörnir: Ari Björnsson formaður, Steinþór Erlendsson gjaldkeri, Björgvin Hrólfsson ritari og meðstjórnendur voru Bergur Ólason og Vilhjálmur Emilsson.

Nafni Verkalýðs- og bílstjórafélags Egilsstaðahrepps var breytt í Verkalýðsfélag Fljótsdalshéraðs þann 15. maí árið 1971. Þá var Héraðið orðið viðurkennt sem eitt atvinnusvæði sem það hafði þó raunar verið því að sveitafólk stundaði mjög mikið vinnu í þéttbýlinu. Verkalýðsfélag Borgarfjarðar sameinaðist svo Verkalýðsfélagi Fljótsdalshéraðs og hét félagið eftir það VFB, Verkalýðsfélag Fljótsdalshéraðs og Borgarfjarðar. Síðasti formaður VFB fyrir sameininguna við AFL var Eyþór Guðmundsson.

Verkamannafélagið Fram á Seyðisfirði[breyta | breyta frumkóða]

Á Seyðisfirði var stofnað eitt elsta verkalýðsfélag landsins árið 1896. Þá var haldinn stofnfundur verkamannafélags á heimili Jóhannesar Oddssonar. Með honum stóðu að þessari uppákomu þeir Einar Long, Anton Sigurðsson frá Akureyri og fleiri. Virðist sem framhaldsstofnfundur hafi verið haldinn 1. maí 1897 og telst félagið þá formlega hafa verið stofnað. Birti Þorsteinn Erlingsson lög félagsins í blaðinu Bjarka á Seyðisfirði á stofndaginn 1. maí, en hann var þá ritstjóri blaðsins.

Fyrsti formaður Verkamannafélags Seyðisfjarðar var Anton Sigurðsson. Félagið starfaði fram yfir aldamótin 1900 eða til 1902 eða 1903.

Verkamannafélagið Fram[breyta | breyta frumkóða]

Aftur var haldið af stað með stofnun verkamannafélags á Seyðisfirði sem fékk nafnið Fram og var stofnað 18. janúar árið 1904 að Austurvegi 38 (Góðtemplarahúsinu) en undirbúningsfundur hafði verið haldinn 13. janúar sama ár.

Fyrsti formaður nýja félagsins var Hermann Þorsteinsson. Með honum í stjórn, sem reyndar var til bráðabirgða, voru Tryggvi Guðmundsson ritari og Páll Árnason gjaldkeri. Viku seinna eða þann 25. janúar var haldinn annar fundur og þá ákveðið að halda aðalfund 1. febrúar. Á aðalfundinum var kosin fimm manna stjórn og í fundargerð er tekið fram að fundurinn hafi verið fjölmennur. Formaður var kosinn Hermann Þorsteinsson, varaformaður var Árni Þórðarson, ritari Tryggvi Guðmundsson, gjaldkeri Páll Árnason og Pétur Jóhannsson var vararitari. Félagið gekk í Alþýðusamband Íslands árið 1930. Síðasti formaður félagsins fyrir sameingu AFLs var Ólöf Hulda Sveinsdóttir.

Verkakvennafélagið Brynja[breyta | breyta frumkóða]

Verkakonur stofnuðu með sér Verkakvennafélagið Brynju á Seyðisfirði þann 3. mars árið 1938. Það var mikill baráttukraftur í konum þeim sem þar komu við sögu og ekki neinn uppgjafartónn. Félagið gekk í ASÍ þann 22. mars sama ár. Fyrsti formaður Brynju var Valgerður Ingimundardóttir. Meðal annarra kvenna sem gegndu þar formennsku voru Sigrún Einarsdóttir og Ingibjörg Hjálmarsdóttir.

Eftir seinni heimsstyrjöldina var mikill kraftur í starfssemi Brynju og var alla tíð fram yfir 1960. Óvíst er hins vegar hvenær Brynja hætti starfsemi þar sem ekki er vitað til þess að hún hafi nokkurn tíma verið afskrifuð formlega. Þegar atvinna jókst á Seyðisfirði á árunum fyrir 1970 gerðist það að konur gengu frekar í Verkamannafélagið Fram en í Brynju. Mun það smám saman hafa dregið kraftinn úr starfsemi Brynju sem á endanum lagðist af. Enginn virðist vita hvað varð um fundargerðarbækur félagsins og eru flest allir frumkvöðlar félagsins látnir.

Verkalýðs-og sjómannafélag Vopnafjarðar og Skeggjastaðahrepps[breyta | breyta frumkóða]

Þetta félag varð til við samruna félaganna tveggja í Vopnafirð árið 1998. Annað þeirra var Verkalýðsfélag Vopnafjarðar sem st1922. Breyting var hins vegar gerð á nafni félagsins á aðalfundi 1950 og kallaðist þá félagið í fyrsta sinn Verkalýðs- og sjómannafélag Vopnafjarðar.

Félagið gekk í ASÍ árið 1934. Síðasti formaður þessa félags fyrir samruna félaganna tveggja var Sigurbjörn Björnsson. Hitt félagið var Verkalýðsfélag Skeggjastaðahrepps sem stofnað var á Bakkafirði þann 23. nóvember árið 1921. Félagið gekk í ASÍ 21. apríl árið 1947. Síðasti formaður félagsins fyrir samrunann við félagið á Vopnafirði var Aldís Gunnlaugsdóttir. Síðasti formaður hinna sameinuðu félaga undir nafni Verkalýðs- og sjómannafélags Vopnafjarðar og Skeggjastaðahrepps fyrir samrunann í AFL, var Sigurbjörn Björnsson á Vopnafirði.

Iðnsveinafélag Fljótsdalshéraðs[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt heimildum á Héraðsskjalasafni Austurlands var stofnað Iðnaðarmannafélag Fljótsalshéraðs þann 9. maí 1954. Átta manns voru á þessuog var Guðmundur Magnússon kosinn formaður. Á aðalfundi Iðnaðarmannafélagsins 19. október árið 1968 var samþykkt að stofna nýtt félag.

Í framhaldi af því varð til nákvæmlega ári seinna Iðnsveinafélag Fljótsdalshéraðs sem var stofnað þann 19. október 1969. Formaður var kjörinn Sigurður Magnússon og voru stofnfélagar 34. Í gjörðabókum félagsins, sem ná yfir tímabilið frá stofnun þess til 20. desember 2001, er talað um sameiningu félaganna en ekki bókað um samruna við AFL. Síðasti formaður Iðnsveinafélags Fljótsdalshéraðs fyrir sameininguna við AFL var Hjálmþór Bjarnason.

Málm- og skipasmiðafélag Neskaupstaðar[breyta | breyta frumkóða]

Þann 15. október árið 1964 var haldinn fundur járniðnaðarmanna, skipasmiða og bifvélavirkja í Neskaupstað. Tilgangur fundarins var að stofna hagsmunasamtök þessara stétta og var Snorri Jónsson frá Sambandi málmiðnaðar og skipasmiða í Reykjavík, sérstakur gestur fundarins. Hann skýrði tilgang hliðstæðra félaga og gerði ráð fyrir að hér yrði um sveinafélag að ræða.

Á fundinum kom fram fyrirspurn um hvort ekki væri heppilegra að stofna deild þessara stétta innan Iðnaðarmannafélags Norðfjarðar (IN). Fram kom að deild innan þess félags fengi ekki inngöngu í Málmiðnaðar- og skipasmíðasambandið og voru flestir fundar menn á þeirri skoðun að „deild innan IN yrði þessum stéttum fjötur um fót, einkum í launa- og kjaramálum“.

Leynileg kosning fór fram um tillögu um að stofna félag járn- og skipasmiða og bifvélavirkja í Neskaupstað og var hún samþykkt með níu atkvæðum, tveir seðlar voru auðir. Kosið var í fyrstu stjórn hins nýja félags og hlutu kosningu Bjarki Þórlindsson formaður, Björgvin Jónsson ritari og Sigurður G. Björnsson gjaldkeri, en hann var aðalhvatamaður að stofnun félagsins.

Ljóst er af lestri fundargerðabókar félagsins að talsvert hefur verið um samningafundi og þá aðallega við stærstu fyrirtæki bæjarins, Dráttarbrautina hf. og Síldarvinnsluna hf. Í árslok 1998 er farið að huga að samstarfi við Verkalýðsfélag Norðfirðinga og þann 1. janúar 1999 tók skrifstofa VN við öllum rekstri Málm- og skipasmiðafélagsins.

Í síðustu fundargerðinni kemur fram að öll þjónusta við félagsmenn hafi gjörbreyst við þessa tilhögun. Síðasti skráði stjórnarfundur er 28. mars 1999 en trúlega hafa verið einhverjir fundir eftir það þótt þeir hafi ekki verið færðir til bókar. Síðasti formaður félagsins var Guðjón B. Magnússon.