Þorsteinn Hafurbjarnarson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þorsteinn Hafurbjarnarson (d. 1325) var íslenskur höfðingi og líklega lögmaður á 13. og 14. öld. Hann var launsonur Hafur-Bjarnar Styrkárssonar, sem bjó á Seltjarnarnesi.

Í annálum segir aðeins að árið 1300 hafi Þórður (Narfason á Skarði) og Þorsteinn verið lögmenn. Jón Sigurðsson telur í Lögsögumannatali og lögmanna, að þetta hafi verið Þorsteinn Hafurbjarnarson en það er þó ekki fullvíst. Hver sem þetta var, þá var hann ekki lögmaður nema árið því að vorið 1301 sendi Hákon háleggur Noregskonungur hingað tvo lögmenn, þá Loðin af Bakka og Bárð Högnason. Sennilega hefur konungur ætlað að reyna að þvinga Íslendinga til að fallast á að hann veitti lögmansembættin í stað þess að lögmenn væru kosnir á Alþingi. Það vildu Íslendingar hins vegar ekki sætta sig við og voru norsku lögmennirnir ekki á landinu nema til haustsins. Þórður Narfason varð lögmaður norðan og vestan að nýju en Mela-Snorri tók við lögmennsku sunnan og austan.

Sonur Þorsteins var Grímur Þorsteinsson, lögmaður, hirðstjóri og riddari. Hugsanlegt er að Jón Þorsteinsson lögmaður hafi einnig verið sonur hans.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Haukur Erlendsson
Lögmaður sunnan og austan
(13001300)
Eftirmaður:
Snorri Markússon