Þorbjörn öngull

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þorbjörn öngull Þórðarson er persóna í Grettis sögu. Hann er þekktastur fyrir að vera banamaður Grettis sterka.

Þorbjörn er sagður hafa verið sonarsonur Hjalta Þórðarsonar landnámsmanns í Hjaltadal. Hann bjó í Viðvík og var óeirðamaður mikill. Skagfirðingar keyptu hann til að vinna á Gretti þegar hann var sestur að í Drangey en honum tókst ekki að sækja að Gretti fyrr en Þuríður fóstra Þorbjarnar, sem var fjölkunnug, lagði bölvun á rótarhnyðju sem hún lét svo reka út í Drangey. Þegar Grettir ætlaði að höggva hnyðjuna í eldinn hljóp öxin í fót hans og kom sýking í sárið, svo að hann var nær dauða en lífi þegar Þorbjörn kom í eyna og vann á honum.

Þorbjörn öngull hjó höfuðið af Gretti og fór með það til Ásdísar móður hans á Bjargi í Miðfirði og sýndi henni. Hann var gerður brottrækur af landinu fyrir vígið og fór til Noregs og síðan til Miklagarðs og gekk í lið Væringja. En Þorsteinn drómundur, hálfbróðir Grettis, elti hann þar uppi og drap hann. Þorsteinn var settur í dýflissu en hefðarkonan Spes keypti hann lausan.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]