Þóra Finnsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þóra Finnsdóttir (1408 – um 1460) var príorinna í Reynistaðarklaustri frá því að Þórunn Ormsdóttir príorinna dó og abbadís frá 25. ágúst 1437, þegar Gozewijn Skálholtsbiskup vígði hana. Til þess þurfti undanþágu því abbadísir áttu að vera orðnar þrítugar en Þóra var aðeins 29 ára.

Þóra var komin af auðugu fólki. Foreldrar hennar voru þau Finnur Gamlason lögréttumaður á Ysta-Mói í Fljótum og kona hans Valgerður Vilhjálmsdóttir. Föðurbræður Þóru voru Jón Gamlason ábóti í Þingeyraklaustri og Marteinn Gamlason sýslumaður á Ketilsstöðum á Völlum.

Þóra var ein af nunnunum átta sem Jón Vilhjálmsson Craxton vígði á Hólum 4. febrúar 1431. Um það leyti sem hún varð príorinna varð klaustrið fyrir því happi að Margrét Bjarnadóttir, ekkja Hrafns Guðmundssonar lögmanns, gekk í klaustrið og lagði með sér 60 hundruð. Jafnframt gaf hún Hólakirkju jörð til að láta syngja sálumessur fyrir mann sinn en hann hafði dáið í banni.

Líklegt er að Þóra hafi tekið sér dýrlingsnafnið Barbara við vígsluna því að í heimildum frá 5. og 6. áratug aldarinnar er talað um Barböru abbadísi en engar heimildir eru um vígslu hennar eða dauða Þóru svo að líklega er þetta sama manneskjan. Raunar er ekki alveg víst hvenær Þórunn/Barbara lést en hún var á lífi 1459 en 1461 var komin ný príorinna.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „„Reynistaðarklaustur". Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags, 8. árg. 1887“.
  • „„Reynistaðarklaustur". Sunnudagsblað Tímans, 6. ágúst 1967“.
  • Sigríður Gunnarsdóttir: Nunnuklaustrið að Reynistað. Smárit Byggðasafns Skagfirðinga.