Örn Bárður Jónsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Séra Örn Bárður Jónsson (f. 23. nóvember 1949 á Ísafirði) er sóknarprestur í Neskirkju í Reykjavík.

Örn Bárður lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1984 og hefur stundað framhaldsnám í guðfræði í Bandaríkjunum og Bretlandi. Hann varð aðstoðarprestur í Garðasókn 1984 og sóknarprestur í Grindavík 1985. Árið 1990 varð hann verkefnisstjóri á Biskupsstofu og fræðslustjóri kirkjunnar frá 1995. Árið 1999 varð hann prestur í Neskirkju og var skipaður í það embætti 1. október 2002. Hann var ritari Kristnihátíðarnefndar 1993-1999 og afmælisnefndar vegna kristnitöku frá 1993.

Séra Örn Bárður hefur skrifað fjölmargar greinar í dagblöð um þjóðfélagsmál, menningarmál og trúmál. Hann varð mjög umtalaður eftir að hann skrifaði smásöguna Íslensk fjallasala h/f en sagan birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1999. Sagan var myndskreytt og minnir aðalpersóna myndarinnar, sem og sögunnar, töluvert á Davíð Oddsson forsætisráðherra. Í framhaldi af því skrifaði Davíð biskupi bréf: „Það er athyglivert að í kynningu á „smásögu“ þar sem forsætisráðherranum er lýst sem landráðamanni (manni sem selur fjallkonuna) og landsölumanni er gefið til kynna að sendingin sé á vegum fræðslustarfs kirkjunnar. Davíð Oddsson.“ Skömmu síðar síðar tilkynnti Karl Sigurbjörnsson biskup séra Erni Bárði að hann væri ekki lengur ritari Kristnihátíðarnefndar en forsætisráðherra sat í nefndinni.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Ein setning frá Davíð til biskups. DV 20. apríl 1999“.
  • „Erni Bárði vikið frá kristnihátíðarnefnd. DV 31. maí 1999“.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikivitnun er með safn tilvitnana á síðunni
  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.