Ólafur Pétursson (f. 1919)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ólafur Pétursson (24. maí 191912. janúar 1972) var íslenskur samstarfsmaður nasista á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og var dæmdur í tuttugu ára hegningarvinnu í Noregi eftir stríð fyrir njósnir og uppljóstranir. Ákærandinn í Gulaþingsdómi í Bergen fór þó fram á dauðarefsingu. Í Noregi var hann kallaður „Íslenski böðullinn“.

Ólafur var sonur Péturs Ingimundarsonar, slökkviliðsstjóra í Reykjavík, og Guðrúnar Benediktsdóttur. Hann hélt til náms skömmu fyrir stríð og komst í ágúst 1940 í kynni við Þjóðverja sem störfuðu fyrir leyniþjónustu þýska hersins, og tæpu ári seinna gekk hann þeim á hönd. Hann kom sér í kynni við félaga í norsku andspyrnuhreyfingunni og upplýsingar sem hann aflaði sér á meðal þeirra leiddu til þess að margir voru handteknir og lentu sumir í fangabúðum Þjóðverja og nokkrir þeirra voru drepnir. Leifur Müller, sem lenti í Sachsenhausen, útrýmingarbúðum Nasista, segir frá því í ævisögu sinni, Býr Íslendingur hér?, að Ólafur hafi líklega látið handtaka sig eftir kaffiboð sem hann hélt honum og Svanhvíti Friðriksdóttur í Noregi, en Svanhvít náði að flýja. Þegar Ólafi var orðið óvært í Noregi vegna njósnastarfsemi sinnar hvarf hann til Danmerkur. Þar dvaldist hann til stríðsloka og reyndi þá að komast til Íslands með Esjunni. Þegar skipið var á leið til Íslands sigldi breski herinn í veg fyrir það, gekk um borð og handtók Ólaf.

Íslensk stjórnvöld leystu Ólaf frá dómi í Noregi eftir stríð, og kom hann aftur til Íslands árið 1947 eftir að hann hafði verið dæmdur þar í tuttugu ára hegningarvinnu 31. maí sama ár. [1] Ákærandinn hafði þó farið fram á dauðadóm. [2] Í forystugrein norska hægriblaðsins Morgenavisen var látið að því liggja að Ólafi hefði verið sleppt til þess að ekki kæmi til leiðinda við Snorrahátíðina í Reykholti þar sem Norðmenn hugðust gefa Íslendingum styttu af Snorra Sturlusyni. Ólafur stofnaði síðar endurskoðunarfyrirtæki í Reykjavík og var meðal annars einn af hvítliðunum svokölluðu, sem aðstoðuðu lögreglu í óeirðunum á Austurvelli árið 1949.

Í bók Leifs Müller, Býr Íslendingur hér, segir hann frá Ólafi þannig:

Á meðan háttsettir nasistar eins og Holmboe voru dæmdir til átta ára fangelsisvistar var Ólafur Pétursson dæmdur í tuttugu ára fangelsi. [..] Í dómsniðurstöðu er sérstaklega tekið fram að athæfi Ólafs Péturssonar í Noregi hafi ekki aðeins verið refsivert heldur líka óþokkalegt og svívirðilegt. Hann hafi misnotað dvalarleyfi sitt og brugðist þeim trúnaði sem honum var sýndur. Tekið er fram að þeir glæpir sem hann framdi séu af verstu tegund slíkra glæpa.
 
— Býr Íslendingur hér (222)
Norðmenn voru farnir að yfirheyra Ólaf þegar íslensk stjórnvöld hófu að blanda sér í málið. Til að byrja með voru sett fram diplómatísks tilmæli um að hann yrði látinn laus. Síðan, þegar ljóst var orðið að réttvísin myndi hafa sinn gang þrátt fyrir tilmælin, setti íslenska ríkisstjórnin fram kröfu um að Ólafur Pétursson yrði látinn í friði. Norðmenn reyndu að skýra það út fyrir Íslendingum hvílík afbrot þessi maður hafði framið í landi þeirra, en allt kom fyrir ekki. Íslensk stjórnvöld héldu áfram þrýstingi sínum og málið færðist nær því að verða að hreinni milliríkjadeilu
 
— Býr Íslendingur hér (223)

Undanlátssemin við íslensk stjórnvöld vakti mikla reiði í Noregi, ekki síst í Bergen og nágrenni þar sem Ólafur hafði mest látið til sín taka. En þremur mánuðum eftir að Ólafur var dæmdur í Noregi gekk hann frjáls ferða sinna um götur Reykjavíkur. Hlutur Ólafs í átökunum á Austurvelli 1949 varð til þess að ferill hans í Noregi var rifjaður upp og afskipti stjórnvalda af málinu. Þá mun utanríkisráðherra, Bjarni Benediktsson, hafa látið í ljós þá skoðun að ómannúðlegt væri að rifja þetta upp þar sem það gæti valdið Ólafi sárindum.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Hvað er í leyniskjölum Bjarna Benediktssonar um Ólaf Pétursson; grein í Þjóðviljanum 1949
  2. Án tillits til málavaxta; grein í Þjóðviljanum 1988

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi æviágripsgrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.