Ólafur Jónsson (prestur á Miklabæ)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ólafur Jónsson (15703. apríl 1658) var skólameistari í Hólaskóla tvisvar, kirkjuprestur á Hólum og síðan prestur á Melstað í Miðfirði og prófastur í Húnavatnsprófastsdæmi og síðast prestur á Miklabæ í Blönduhlíð og prófastur í Skagafjarðarprófastsdæmi.

Ólafur var fæddur í Grímstungu í Vatnsdal, sonur séra Jóns Bjarnarsonar siðamanns, prests þar, og konu hans Filippíu Sigurðardóttur. Hann lærði við Kaupmannahafnarháskóla og varð svo skólameistari á Hólum einn vetur, 1594-1595. Hann var vígður dómkirkjuprestur á Hólum árið 1600 og frá 1604 var hann jafnframt skólameistari í Hólaskóla og gegndi báðum störfunum þar til hann tók við prestsembættinu á Melstað af Arngrími Jónssyni lærða 1611. Þar var hann fram til um 1630, þegar hann varð prestur á Miklabæ í Blönduhlíð, þar sem hann var til dauðadags 1658 og hafði þá verið prestur 58 ár þótt hann tæki ekki vígslu fyrr en þrítugur.

Kona Ólafs var Guðrún Þórðardóttir frá Marðarnúpi, bróðurdóttir Guðbrands biskups.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „„Skólameistaratal á Hólum í Hjaltadal". Norðanfari, 31.-32. tölublað 1882“.