Óðinstorg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jólaskreytingar á Óðinstorgi árið 2020.

Óðinstorg er lítið torg á gatnamótum Þórsgötu, Týsgötu, Óðinsgötu og Spítalastígs í miðborg Reykjavíkur. Við Óðinstorg standa meðal annars Hótel Óðinsvé, veitingastaðurinn Snaps, og Norræna félagið.

Torgið var upphaflega byggingalóð sem bæjarstjórn Reykjavíkur keypti af eigandanum árið 1906 til að gera þar torg, en lóðin þótti mjög óhrjáleg. Eftir breytinguna voru nokkrar verslanir stofnaðar við torgið, meðal annars mjólkurbúð og skóbúð, og þar var settur upp auglýsingaturn. Fisksalar voru með söluvagna á Óðinstorgi um tíma, en þá þótti hentugt að selja fisk í nágrenni við mjólkurbúðir þar sem húsmæður versluðu reglulega. Fljótlega eftir að bifreiðar tóku að sjást á götum borgarinnar var farið að nota torgið sem óskipulegt bílastæði og 1949 var það skipulagt sem slíkt.

Árið 2000 kom fram sú tillaga frá Evu Maríu Jónsdóttur, dagskrárgerðarkonu og fulltrúa íbúa í Miðborgarstjórn, að endurheimta eða gera þrjú smátorg á Skólavörðuholti; Óðinstorg, „Freyjutorg“ (á mótum Freyjugötu, Óðinsgötu og Bjargarstígs) og „Baldurstorg“ (á mótum Baldursgötu, Óðinsgötu og Nönnugötu) en bílum var oft lagt óskipulega á þessum tveimur síðarnefndu gatnamótum. Þessar framkvæmdir voru samþykktar í umhverfis- og skipulagsráði árið 2008. Árið 2010 var síðastnefndu gatnamótunum breytt í lítið torg og vistgötu með blómakerjum og bekkjum og 2018 var Freyjutorg búið til með niðurfelldum sorpgámum, bekkjum og lýsingu. Árið eftir hófust framkvæmdir við Óðinstorg sem var opnað í nýrri mynd árið 2020.