Íslenska útvarpsfélagið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Íslenska útvarpsfélagið er íslenskt fjölmiðlafyrirtæki sem var stofnað utanum rekstur Bylgjunnar árið 1984. Það eignaðist síðan fjölda einkarekinna útvarps- og sjónvarpsstöðva næstu árin og myndaði að lokum einn hluta stóru fjölmiðlasamsteypunnar Norðurljósa. Að lokum rann félagið saman við Frétt ehf og varð þá einn hluti 365 miðla.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Íslenska útvarpsfélagið var stofnað árið 1984 þegar fyrir lá að útvarpslögum yrði breytt og rekstur einkarekinna útvarps- og sjónvarpsstöðva heimilaður. Í stjórn félagsins voru þeir Jón Ólafsson í Skífunni og Magnús Axelsson fasteignasali. Eftir nokkra leit að hentugu húsnæði kom félagið sér fyrir á efri hæð gömlu Osta- og smjörsölunnar við Snorrabraut. Útvarpsstöðin Bylgjan hóf síðan útsendingar 28. ágúst 1986 og í nóvember árið eftir fór Ljósvakinn í loftið.

Vorið 1989 hóf Íslenska útvarpsfélagið viðræður um sameiningu við Stjörnuna sem var í eigu Hljóðvarps ehf., en meðal eigenda þess félags var Ólafur Laufdal. Sameiningarviðræður sigldu í strand eftir nokkra mánuði, að sögn vegna þess að skuldir Stjörnunnar væru meiri en Íslenska útvarpsfélagið hafði áður gert sér grein fyrir. Í kjölfarið fór Hljóðvarp ehf. í gjaldþrot og Íslenska útvarpsfélagið keypti upp þrotabúið í september 1989.

Í upphafi árs 1990 var nýtt hlutafé fengið inn í rekstur Íslenska sjónvarpsfélagsins sem rak Stöð 2. Í febrúar sama ár var hlutafé í Íslenska útvarpsfélaginu aukið til að fjármagna kaup á hlutabréfum í fyrrnefnda félaginu. 4. maí sameinaðist fyrirtækið svo Íslenska sjónvarpsfélaginu og til varð ein fjölmiðlasamsteypa með tvær útvarpsstöðvar og eina sjónvarpsstöð. Sama ár var samþykkt sala á 7% hlut til Sigurjóns Sighvatssonar, en þeir Jón Ólafsson voru þá stærstu einstöku hluthafarnir.

1993 var Fjölvarpinu hleypt af stokkunum með endurvarpi átta erlendra gervihnattastöðva. 1994 fór af stað rannsókn vegna ásakana minnihluta eigenda félagsins um ólögleg viðskipti Jóns Ólafssonar við félagið. Við það tækifæri tóku stærstu eigendur Íslenska útvarpsfélagsins sig saman og stofnuðu hlutafélagið Útherja hf. um sína eign í félaginu. 1995 keypti félagið þriðjung hlutafjár í Frjálsri fjölmiðlun skömmu áður en Sýn hóf útsendingar. Sameining Stöðvar 2 og Sýnar hafði raunar staðið til frá 1990 en eigendur DV höfðu þá sett sig upp á móti því. Árið 1995 birti Helgarpósturinn frétt um að Jón Ólafsson hefði látið fyrirtæki sitt, Skífuna, yfirtaka skuldir R-listans við Íslenska útvarpsfélagið. Síðar sama ár endurfjármagnaði félagið skuldir sínar með samningi við Chase Manhattan Bank. Þetta tengdist fléttu sem snerist um að útvarpsréttarnefnd gæfi Sýn útsendingaleyfi með því skilyrði að hún væri ekki í meirihlutaeigu Íslenska útvarpsfélagsins. Sýn hóf útsendingar í nóvember sama ár. Fljótlega kom þó í ljós að Sýn var í reynd aðeins deild í Íslenska útvarpsfélaginu með alla sömu stærstu eigendur.

Árið 1995 leit út fyrir að Stöð 2 fengi samkeppni þegar Stöð 3 hóf útsendingar. Eigendur Stöðvar 3 voru meðal annars Nýherji, Sambíóin og Árvakur. Eftir langan og erfiðan hallarekstur og vandræði með myndlykla og örbylgjuloftnet varð niðurstaðan sú að Íslenska útvarpsfélagið keypti öll hlutabréf í Stöð 3 árið 1997. Sama ár hóf félagið rekstur tveggja nýrra útvarpsstöðva, Stjörnunnar og X-ins og keypti tvo netþjónustuaðila, Islandia og Treknet, sem voru sameinaðir í fyrirtækið Islandia Internet.

1998 keypti Íslenska útvarpsfélagið þriðjungshlut í nýstofnuðu farsímafyrirtæki, Tali. Sumarið 1999 voru síðan eignarhlutirnir í Íslenska útvarpsfélaginu, Sýn, Tali og Skífunni, sameinaðir í nýja fjölmiðlasamsteypu, Norðurljós. Skuldir Íslenska útvarpsfélagsins fóru inn í nýja félagið og reyndust því þung í skauti, sérstaklega eftir hrun á íslenskum hlutabréfamarkaði árið 2002. Á endanum sameinuðust Norðurljós Frétt ehf.. Jón Ásgeir Jóhannesson og Pálmi Haraldsson áttu saman meirihluta í nýja félaginu sem fékk nafnið 365 miðlar.