Æviskrá

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Æviskrá er stuttur æviþáttur eða æviágrip einstaklings (eða hjóna), þar sem gerð er grein fyrir helstu staðreyndum, til dæmis um nám, störf og fjölskyldu.

Æviskrá getur ýmist verið örstutt upptalning helstu atriða, eða nokkurra blaðsíðna greinargerð um manninn. Yfirleitt er miðað við að æviferill mannsins liggi fyrir í heild, það er að hann sé látinn, en einnig getur verið um að ræða æviskrár samtíðarmanna. Þá er stundum hafður sá háttur á að viðkomandi gerir æviskrána sjálfur, samkvæmt ákveðinni forskrift, og hún svo yfirfarin og lagfærð af ritstjóra.

Oft er æviskrám safnað saman í margra binda ritverk, sem takmarkast oftast við ákveðið svið, til dæmis starfsgrein eða hérað.

Flestar þjóðir hafa gefið út margra binda verk með æviskrám þekktra einstaklinga (æviskrárrit eða ævisöguleg uppflettirit). Danir eiga til dæmis Dansk biografisk leksikon, sem komið hefur í þremur útgáfum, síðast 1979–1984, í 16 bindum. Þar má finna æviágrip margra Íslendinga frá fyrri öldum.

Skyldar æviskrám eru ferilskrár (latína: curriculum vitae), sem fólk tekur sjálft saman, til dæmis við undirbúning starfsumsóknar.

Nokkur íslensk æviskrárrit[breyta | breyta frumkóða]

  • Páll Eggert Ólason: Íslenskar æviskrár, 6 bindi. — Æviskrár þekktra Íslendinga frá upphafi, til um 1950.
  • Björn Magnússon: Vestur-Skaftfellingar, 4 bindi.
  • Borgfirskar æviskrár.
  • Skagfirskar æviskrár.
  • Kennaratal, 5 bindi.
  • Læknatal.
  • Lögfræðingatal.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]